Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Bóndi í Eyjafjarðarsveit smíðar stærstu kú á Íslandi

18.06.2021 - 15:17
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Bóndi og handverkskona í Eyjafjarðarsveit vinnur nú að því að smíða stærstu kú á Íslandi. Hún sem verður rúmir þrír metrar á hæð verður nokkuð nákvæm eftirmynd af gamalli kú á bænum.

„Finnst kýr vera skemmtileg dýr“

Það er Beate Stormo, bóndi og handverkskona sem vinnur að því að smíða kúnna. „Ferðamálanefnd Eyjafjarðarsveitar kom að tali við mig og langaði í risa stóra kú. Og ég hugsaði, já það væri nú gaman að smíða risa stóra kú þar sem ég er kúabóndi. Hef gaman af kúm, finnst kýr vera skemmtileg dýr,“ segir Beate. 

3 metrar á hæð

En þetta verður engin venjuleg kýr því Beate ætlar að smíða stærstu kú á Íslandi. „Ég hugsaði, hversu stórt get ég gert þetta? og ég komst að því að kannski 3 metrar á hæð, það hlýtur að vera innan marka og kú sem er 3 metrar á hæð er sirka 5 metra löng.“

Fann fyrirmynd í fjósinu

Beate er fjölhæf kona því auk þess að vera margfaldur Íslandsmeistari í eldsmíði er hún kúabóndi. Það voru því hæg heimatökin þegar kom að því að finna fyrirmynd. „Ég fór svo út í fjós og fann kýr sem var með kropp sem mér líkaði og mældi hana alveg bak og fyrir og fór svo inn og gerði þetta líkan sem sagt.  Ég vildi að þetta væri ekkert svona, ung og hraust kú. Ég vildi að þetta væri svona vitur, eldri kú þannig að það sést að þetta er ekkert rosalega fullkomið júgur, þetta er svolítið sýgið júgur með svona lélegt júgurband eins go við segjum í sveitinni og hún svo svolítið laus í bógunum en hún er alveg eld hraust og klár og vitur.“

Safna fyrir kúnni

Þar sem verkið er stórt og flókið hefur hún fengið aðstoð víða að. Þá vinnur ferðamálanefnd sveitarinnar nú að því að fjármagna verkið með söfnun. Þegar hafa safnast tvær milljónir en reiknað er með að kýrin, sem fékk nafnið Edda kosti um fimm milljónir. 

Ertu aldrei kvíðin því að þetta sé bara of mikið?

 „Jú jú ég er það alveg en það þýðir ekki.“