Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Texasbúar mega bera byssur á almannafæri án byssuleyfis

17.06.2021 - 04:49
epa08305184 Texas Governor Greg Abbott holds a press conference to discuss new measures after the first confirmed death in Texas, in Arlington, Texas, USA, 18 March 2020. The first confirmed COVID-19 coronavirus death in Texas occurred a day earlier in Arlington.  EPA-EFE/LARRY W. SMITH
 Mynd: epa
Greg Abbott ríkisstjóri í Texas hefur staðfest lög sem heimila íbúum að bera skotvopn án sérstaks byssuleyfis. Andstæðingar löggjafarinnar segja hættu á ofbeldi aukast með slíkum reglum.

AFP fréttaveitan greinir frá að lögin voru samþykkt bæði í fulltrúadeild og öldungadeild ríkisþingsins í síðasta mánuði. Samkvæmt þeim er öllum 21 árs og eldri heimilt að bera skotvopn á almannafæri.

Þó er settur sá fyrirvari að það sé til að mynda ekki leyfilegt fólki sem hlotið hefur dóma fyrir ákveðin brot á undanförnum fimm árum. Jafnframt eru ýmis svæði undanþegin, þar á meðal skólar.

Andstæðingar lagasetningarinnar segja að vægt regluverk varðandi vopnaburð auki mjög líkur á ofbeldisverkum og rifja upp fjölda skotárása sem hafa kostað tugi mannslífa. Í seinustu viku var gerð skotárás í Austin, höfuðborg Texas, þar sem 13 særðust og einn féll. 

Í kjölfar þeirrar árásar fór þingmaðurinn Vikki Goodwin þess á leit við Goodwin að hann synjaði lögunum staðfestingar. 

Lögin taka gildi 1. september næstkomandi en í rökstuðningi með frumvarpinu segir að í stjórnarskrám Bandaríkjanna og Texasríkis sé það réttur hvers borgara að bera vopn og því skuli draga úr hömlum á því.

Abbott sagði í apríl að þegar hefðu tuttugu ríki ákveðið að haga sínum málum með þessum hætti og því þætti honum tímabært að Texas gerði það einnig. Til stendur að hann undirriti lögin við sérstaka athöfn að morgni fimmtudagsins 17. júní. 

Veronica Escobar þingmaður á Bandaríkjaþingi segir að með því að staðfesta lögin vanvirði Abbott ríkisstjóri minningu alls þess fólk sem fallið hefur fyrir hendi byssumanna.