Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Mestu fordómarnir sem ég fann fyrir voru mínir eigin“

17.06.2021 - 16:07
Mynd: Halla Mia / RÚV
Veiga Grétarsdóttir var fjallkonan á Ísafirði í dag og segir hvergi betra að vera sem transkona en á Ísafirði. Hún segist hafa flúið þaðan vegna eigin fordóma og haldið að það væri erfitt að vera hinsegin í litlu samfélagi. Hún flutti aftur til Ísafjarðar árið 2016 og segir það mikinn heiður að hafa fengið að vera fjallkonan í ár.

„Ég flúði norður á Akureyri og svo til Reykjavíkur og svo til Noregs. Það var ekki fyrr en ég kom aftur rúmlega tuttugu árum síðar að ég fann mig hérna heima á Ísafirði. Og fólk heldur alltaf að það sé svo erfitt fyrir hinsegin fólk að vera í svona litlu samfélagi en mér finnst bara hvergi betra að vera heldur en hér heima á Ísafirði,“ segir Veiga.

Hvað er gott við það?

„Það er góð samstaða, ég fann að ég var velkomin. Fólk tók vel á móti mér og var forvitið og spurði. Ég svaraði. Fólk hrósaði mér fyrir hugrekkið að koma út og vera ég,“ segir hún. 

Veiga segir að það hafi verið mikill heiður að fá að vera fjallkonan á Ísafirði í ár. „Það er mjög hjartnæmt fyrir mig að fá þann heiður, og reyndar líka fyrir transsamfélagið. Mestu fordómar sem ég upplifði voru mínir eigin fordómar, ég hélt að ég gæti ekki verið hérna af því að fólk myndi dæma mig. Og það er svo oft þannig. Mér finnst oft mikil neikvæðni þegar er talað um transfólk, að það missi vinnuna, það sé erfitt að fara í sund og hitt og þetta. En mig langaði bara að þakka samfélaginu fyrir það hvað er gott að vera hérna,“ segir hún.