Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Læknarnir drápu Diego“

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia
Lögmaður hjúkrunarfræðings, sem sætir rannsókn vegna andláts knattspyrnumannsins Diego Maradona, fullyrðir að kenna megi hirðuleysi lækna um hvernig fór. „Þeir drápu Diego,“ sagði Rodolfo Baque við fréttamenn eftir að yfirheyrslum ákæranda yfir hjúkrunarfræðingnum Dahiana Gisela Madrid lauk í gær.

Maradona var sextugur þegar lést af völdum hjartaáfalls í nóvember síðastliðnum. Tvö barna hans lögðu fram kæru á hendur taugalækninum Leopoldo Luque sem þau kenna um bágt ástand hans eftir heilaaðgerð. 

Maradona undirgekkst heilaaðgerð vegna blóðtappa nokkrum vikum áður en hann dó. Rannsókn stendur nú yfir á mögulegri aðild sjö úr læknaliði knattspyrnumannsins að andlátinu en sérfræðingar sem rannsökuðu málið telja sannað að umönnun hans hafi verið mjög ábótavant.  

Rodolfo Baque heldur því fram að kenna megi þeim læknum um hvernig fór, sem önnuðust Maradona eftir aðgerðina en alls ekki skjólstæðingi hans. Hann segir knattspyrnumanninn hafa fengið geðlyf sem hertu á hjartslætti þrátt fyrir að á sama tíma hafi hann átt við hjartavanda að stríða. 

Einnig hafi Maradona dottið meðan á sjúkrahúsdvölinni stóð og sjálfur krafist þess að sneiðmynd yrði tekin vegna þess. Aðstoðarmaður hans hafi þvertekið fyrir það því slíkt gæti litið illa út gagnvart fjölmiðlum. 

„Þess vegna benti margt til þess að Maradona myndi deyja á hverri stundu. Enginn læknanna gerði neitt til að koma í veg fyrir það,“ staðhæfir Baque. Madrid annaðist Maradona að degi til og var meðal þeirra síðustu sem sáu hann á lífi.

Yfirheyrstur yfir Madrid stóðu í yfir átta klukkustundir en hún segist hafa komið að Maradona meðvitundarlausum og reynt að koma lífi í hann. Á mánudaginn var hjúkrunarfræðingurinn Ricardo Almiron yfirheyrður, fyrstur sjömenningana, en yfirheyrslur halda áfram næstu tvær vikur. 

Dómari ákveður að því loknu hvort málið verði dómtekið en búist er við að málarekstur geti þá tekið marga mánuði eða jafnvel ár.

Verði sjömenningarnir fundnir sekir um að bera ábyrgð á dauða Maradona geta þau átt yfir höfði sér átta til 25 ára fangelsi. Þeim er óheimilt að yfirgefa Argentínu meðan á rannsókninni stendur.