Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ísland eftirbátur nágrannaríkjanna í samkeppnishæfni

17.06.2021 - 13:09
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Ísland er eftirbátur nágrannaríkjanna í samkeppnishæfni, samkvæmt nýjum samanburði IMD-viðskiptaháskólans í Sviss. Ísland er í 21. sæti af sextíu og fjórum og stendur í stað frá því í fyrra. Svíþjóð er í öðru sæti á eftir Sviss, Danmörk í þriðja og Noregur í því sjötta.

Ótal þættir eru teknir með í reikninginn og meðal þess sem dregur Ísland niður er atvinnuleysi, samdráttur og halli ríkissjóðs. Konráð Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, segir áhyggjuefni hversu illa Ísland stendur í norrænum samanburði. 

„Ef við skoðun undirþættina þá standa þau okkur framar í flestu. Í efnahagslegri frammistöðu, að miklu leyti því þau eru stærri en ekki eingöngu, það er til dæmis meiri erlend fjárfesting að koma inn á hinum Norðurlöndunum. Þau standa betur í ýmsu sem snýr að vinnumarkaðnum og regluverki, sumum innviðum, til dæmis tæknilegum innviðum. Við stöndum þeim eiginlega ekki framar í neinum af þessum undirþáttum,“ segir hann.

Hann segir að efnahagsleg áhrif faraldursins hafi verið meiri hér á landi en víða annars staðar og að Ísland færist líklega ofar á listann eftir því sem hagkerfið kemst á réttan kjöl.  

„Ef við horfum framhjá þessum augljóslega COVID-tengdu áhrifum á efnahagslega frammistöðu okkar og vinnumarkaðinn, þá er ýmis jákvæð þróun í hinum og þessum þáttum hjá okkur eins og bara til dæmis í fjármögnunarumhverfinu, það er verið að fjárfesta meira í rannsóknum og þróun. Það er ýmislegt í mati stjórnenda að koma betur út. Þannig að þó við stöndum í stað er ýmislegt gott að gerast,“ segir Konráð og bætir við að með markvissum aðgerðum ætti Ísland vel að geta staðið jafnfætis Svíþjóð, Danmörku og Noregi.