Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Héraðsdómur vísar frá kröfu um bætur vegna ferðagjafar

17.06.2021 - 09:53
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í gær frá kröfu upp á 6,4 milljónir frá forsvarsmönnum tæknifyrirtækis sem töldu sig hafa orðið fyrir tjóni vegna útfærslu á ferðagjöfinni.

Stjórnvöld ákváðu í fyrra að gefa landsmönnum svokallaða ferðagjöf til að bregðast við kórónuveirufaraldrinum. Verkefnið átti að styðja við bakið á íslenskri ferðaþjónustu og fengu allir, 18 ára og eldri, gjafabréf upp á 5 þúsund krónur.

Íslendingar nýttu ferðagjöfina fram á síðustu stundu eða þar til ný ferðagjöf tók gildi. Rúmur milljarður var greiddur til hinna ýmsu fyrirtækja, langmest á höfuðborgarsvæðinu. 

Stafrænu Íslandi var falið að leiða útfærslu á verkefninu. Fram kemur í dómnum að verkefnið hafi þurft að vinnast mjög hratt og að endanleg útfærsla hefði verið í mótun þar til lög um ferðagjöfina voru sett fyrir ári síðan.

Í dómnum segir að margir hafi sett sig í samband við Stafrænt Ísland til að spyrjast fyrir og kynna sig og sínar hugmyndir að lausnum, meðal annars forsvarsmenn umrædds tæknifyrirtækis. 

Gerður var samanburður á verði hjá fjórum fyrirtækjum og að endingu varð hugbúnaðarfyrirtækið Yay fyrir valinu.

Forsvarsmenn tæknifyrirtækisins óskuðu eftir að fá að kynna lausn sína frekar og féllst framkvæmdastjóri Stafræns Íslands á að skoða málið ofan í kjölinn. Eftir nokkur samskipti var þeim þó tilkynnt að niðurstaðan væri óbreytt. 

Við það sættu þeir sig ekki og sögðu að útfærsla Yay uppfyllti ekki þær grunnkröfur sem gerðar voru til verkefnisins. Þeir kröfðu því ríkið um 6,4 milljónir, meðal annars á þeim forsendum að lög um opinber innkaup hefðu verið brotin.

Héraðsdómur segir í úrskurði sínum að mjög skorti á skýrleika í málatilbúnaðinum um samhengi atvika, dómkrafna og málsástæðna fyrir þeim. Var því fallist á kröfu ríkisins um að vísa málinu frá. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV