Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fyrrverandi upplýsingafulltrúi UST vill 23 milljónir

17.06.2021 - 15:13
Björn Þorláksson
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Björn Þorláksson, fjölmiðlamaður, hefur stefnt íslenska ríkinu fyrir ólögmæta niðurlagningu á starfi hans sem upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar. Björn krefst þess að ríkið verði dæmt til að greiða honum tveggja ára laun og 3 milljónir í miskabætur eða samtals 23 milljónir.

Fyrirtaka var í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Björn var ráðinn til Umhverfisstofnunar í byrjun árs 2017 en starf hans var lagt niður í byrjun þessa árs.

Fram kemur í stefnunni að hann hafi verið kallaður fyrirvaralaust á fund með forstjóra Umhverfisstofnunar og mannauðsstjóra í nóvember. Þar hafi honum verið afhent bréf þar sem honum var tilkynnt um verulegar breytingar á verkefnaskipulagi og áherslum tengdum starfi hans sem upplýsingafulltrúa.

Honum var boðið að taka þátt í hæfnismati sem hann þáði en með þeim fyrirvara að matið stæðist lög sem hann taldi leika verulegan vafa á.

Í stefnunni segir enn fremur að í janúar hafi honum verið tilkynnt að leggja ætti starf hans niður. Rúmum mánuði síðar hafi Umhverfisstofnun auglýst laust til umsóknar starf sérfræðings í stafrænni þróun, fræðslu og miðlun. Segir í stefnunni að verkefnalýsing þessa nýja starfs hafi að flestu leyti verið sú sama og þau verkefni sem hann sinnti fyrir stofnunina.

Björn telur að ákvörðun Umhverfisstofnunar um leggja niður starf hans hafi verið ólögmæt. Forsendurnar fyrir þeirri ákvörðun hafi verið hreinn fyrirsláttur því uppsögn hans hafi verið löngu áformuð. 

Hann telur að engin nauðsyn hafi verið til að grípa til svo harkalegra aðgerða að leggja niður starf hans. Hægt hefði verið að finna aðra stöðu fyrir hann innan stofnunarinnar og þá hefði hann verið vel hæfur til þess að hinu nýja starfi sem Umhverfisstofnun auglýsti laust til umsóknar.

Björn segir að niðurlagning starfsins hafi verið sérlega íþyngjandi fyrir hann og leitt til mikils fjárhagslegs tjóns. Það muni reynast honum nánast ómögulegt að fá annað starf við hæfi og hann sjái fram á að þurfa að flytjast búferlum til þess að geta fengið aðra vinnu við hæfi. 

Framganga Umhverfisstofnunar hafi valdið honum andlegu tjóni, rýrt starfsheiður hans og álit annarra á honum. Veruleg óvissa sé um framtíðaratvinnu og tekjulega afkomu hans og fjölskyldu. 

Hann krefst því þess að íslenska ríkið verði dæmt til að greiða honum laun í tvö ár og þrjár milljónir í miskabætur sem hann segir að sé síst of há krafa að teknu tilliti til málsatvika og framkomu Umhverfisstofnunar.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV