Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fé kemst seinna í úthaga

17.06.2021 - 00:00
Síðustu daga hefur verið mikil kuldatíð á Norðurlandi. Bændur í sveitum norðaustanlands hafa fæstir getað sleppt fé sínu á fjöll og verða að hafa það á beit í heimahaga.

Júnímánuður byrjaði vel með góðri tíð fyrir norðan. Síðustu daga hefur verið nístingskalt og víða snjóað. Veðurfarið hefur mikil áhrif á sauðfjárbændur sem treysta á úthagana til að beita fé sínu.

Kindur allar enn á beit í heimahaga

Guðmundur Björnsson bóndi á Fagrabæ í Grýtubakkahreppi segist venjulega vera búinn að setja fé út í kringum þjóðhátíðardaginn. Nú sé hins vegar ekkert útlit fyrir að hægt verði að sleppa fénu og ekki ein einasta kind komin á fjall. Ástæðan fyrir að ekki er hægt að reka féð á beitarstað eru mikil snjóalög á leiðinni. Guðmundur er með um 300 kindur auk lamba, öll á beit í heimahaga. 

Guðmundur segir að það mætti alveg vera meira gras á túnunum og sé nauðsynlegt að gefa hey með. Staðan á heyinu er ekki góð. „Það er að verða búið, örfáar rúllur eftir,“ segir Guðmundur.

Ekki nægilega góð staða á heybirgðum

Sigurgeir Hreinsson, framkvæmdastjóri hjá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar segir sömuleiðis að heilt yfir sé ekki byrjað að flytja fé á fjöll. Það er helst á láglendi sem hægt sé að sleppa því. Staðan sé til dæmis skárri í Eyjafirði heldur en í Þingeyjarsýslum.

„Heilt yfir er vanalega búið að sleppa fé 20. júní en það verður víða ekki hægt að gera núna,“ segir Sigurgeir.

Bændur þurfa margir hverjir að gefa hey með beitinni og er víða lítið hey eftir. „Heyfang var ekki mikið síðasta sumar, til dæmis vegna mikils kals. Þó að hey virðist ætla að duga núna þá er ljóst að farið verður seint að heyja í sumar og eiga bændur sumir litlar og engar fyrningar.  Menn eru svolítið svartsýnir upp á framhaldið hvort nægt hey náist fyrir veturinn,“ segir Sigurgeir.