Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

COVID-19: Lissabon lokuð með öllu

17.06.2021 - 18:58
Mynd með færslu
 Mynd: Luis Ascenso - Flickr
Ferðir inn og út úr Lissabon, höfuðborg Portúgals, og nágrenni borgarinnar verða bannaðar með öllu næstu daga vegna þess hversu hratt smitum hefur fjölgað á svæðinu.

Ferðatakmarkanirnar taka gildi klukkan þrjú á morgun og gilda yfir alla nema þá sem ferðast vegna vinnu. „Við vitum að þetta er ekki það sem fólk óskar sér en þetta er nauðsynlegt til þess að vernda aðra landshluta,“ segir Mariana Vieira da Silva, talsmaður ríkisstjórnarinnar. 

Kórónuveirusmitum hefur ekki fjölgað jafnhratt og nú í Portúgal síðan í febrúar og 804 af 1.233 nýjum smitum í gær greindust á Lissabon-svæðinu. Talið er að Delta-afbrigðið breiðist þar hraðast út. Nýgengi smita á svæðinu, fjöldi nýrra smita á hverja 100 þúsund íbúa á 14 dögum, er 254, en annars staðar á landinu er það 90. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV