Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Von der Leyen hefst handa við útdeilingu fjármagns

epa09273676 European Commission President Ursula Von Der Leyen speaks during a press conference with EU Budget Comissionner Johannes Hahn (not pictured) on NextGenerationEU, the Recovery Plan for Europe at the European Commission in Brussels, Belgium, 15 June 2021.  EPA-EFE/STEPHANIE LECOCQ / POOL POOL EPA
 Mynd: EPA-EFE - EPA POOL
Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins hefst handa í dag við að samþykkja áætlanir þeirra ríkja sem sótt hafa um endurreisnarstyrki og lán úr voldugum björgunarpakka sambandsins.

Þegar hafa 23 ríkisstjórnir lagt fram áætlanir um fjárfestingar og umbætur en framkvæmdastjórnin hefur tvo mánuði frá umsókn til að fjalla um þær. Mánuði eftir það ber leiðtogaráði Evrópusambandsins að ákveða hvort umsókn er samþykkt eða ekki.

Von der Leyen heldur til Spánar og Portúgal í dag en heimsókn hennar þangað er táknræn fyrir átakið fram undan. Ríkisstjórn Antonio Costa í Portúgal var sú fyrsta innan sambandsins til að leggja fram áætlun og gerði það þegar í apríl.

Næsthæsta fjárhæðin úr björgunarpakkanum rennur til Spánar, en Ítalía þarf á mestri aðstoð að halda. Búist er við að Spánn þarfnist um 140 milljarðar evra til endurreisnar, helmingur þess verður í formi lána og beinna styrkja.

Spánn varð mjög illa úti þegar í upphafi faraldursins en ástandið var mjög alvarlegt í Portúgal fyrr á þessu ári.

Efnahagur beggja ríkjanna byggir mjög á ferðamennsku og því hefur faraldurinn haft veruleg áhrif á afkomu þeirra. Von der Leyen heldur til Grikklands og Danmerkur á morgun og þaðan til Lúxemborgar á föstudag.