Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Valsmenn aftur á toppinn

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Valsmenn aftur á toppinn

16.06.2021 - 22:07
Valur komst á toppinn í úrvalsdeild karla í fótbolta á ný eftir 3-1 sigur á Breiðabliki í kvöld. Valur hefur nú tveggja stiga forskot á Víking, en Víkingur á þó leik til góða á Val.

Valsmenn höfðu 17 stig í 2. sæti fyrir leik kvöldsins, stigi á eftir Víkingi sem var á toppnum. En Blikar voru með 13 stig í 5. sæti en höfðu spilað einum leik minna en Valur. Á 25. mínútu í kvöld tók Birkir Heimisson hornspyrnu sem Sebastian Hedlund skallaði í Damir Muminovic og í markið og Valur þar með kominn yfir, 1-0. Áður en fyrri hálfleikur var á enda hafði svo Almarr Ormarsson sent boltann á Patrick Pedersen sem jók forskot Vals í 2-0.

Valsmenn voru staðráðnir í því að gera vel í leiknum í kvöld og Guðmundur Andri Tryggvason skoraði sitt fyrsta mark í búningi Vals þegar hann bætti þriðja marki Valsmanna við á 65. mínútu. Blikar náðu þó að minnka muninn þrettán mínútum fyrir leikslok. Árni Vilhjálmsson skoraði þá mark úr vítaspyrnu fyrir Breiðablik og minnkaði muninn í 3-1.

FH og Stjarnan skildu svo jöfn, 1-1. Jónatan Ingi Jónsson kom FH yfir með marki á 18. mínútu. Einar Karl Ingvarsson jafnaði fyrir Garðbæinga á 38. mínútu og þar við sat. Þetta var fjórði leikurinn í röð sem FH mistekst að vinna. Uppskeran var þó betri í kvöld, því FH tapaði síðustu þremur leikjum sínum í deildinni fyrir jafnteflið í kvöld. FH hefur nú 11 stig í 6. sæti en Stjarnan hefur 7 stig í 9. sæti.