Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Um 24 þúsund hluthafar að loknu hlutafjárútboði

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hluthafar í Íslandsbanka verða um 24 þúsund eftir hlutafjárútboð bankans sem lauk á hádegi í dag. Ekki eru fleiri hluthafar í nokkru skráðu fyrirtæki á Íslandi að því er fram kemur í tilkynningu frá bankanum.

Áætlað markaðsvirði bankans er158 milljarðar króna eða 1,3 milljarðar Bandaríkjadala sé miðað við útboðsverð. Útboðið hófst á mánudaginn í síðustu viku en um 35 prósenta hlutur bankans var til sölu.

Almennir og fagfjárfestar sýndu útboðinu talsverðan áhuga,  heildareftirspurn nam um 486 milljörðum króna en margföld umframeftirspurn var í útboðinu á endanlegu útboðsverði.

Upplýst verður um úthlutun hluta á morgun, miðvikudaginn 16. júní og búist við að viðskipti með bréfin á aðalmarkaði Nasdaq á Íslandi hefjist 22. júní næstkomandi.

Bankinn og íslenska ríkið skuldbinda sig, í þágu þeirra er önnuðust útboðið, til að selja ekki frekari hluti í bankanum í 180 daga eftir fyrsta viðskiptadag hlutabréfanna.

Bjarni Benediktsson efnahags- og fjármálaráðherra og Lárus L. Blöndal  stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins fagna báðir mikilli þátttöku almennings í útboðinu. 

„Leiðir þetta ekki síst af þeirri ákvörðun að heimila áskriftir allt niður í 50 þúsund krónur og að láta áskriftir einstaklinga allt að einni milljón króna óskertar,“ segir Bjarni sem áréttar mikilvægi ábatans af sölu bankans sem komi sér vel í þeirri uppbyggingu sem fram undan sé.

Ríkið heldur enn 65% hlut í bankanum, aðrir innlendir fjárfestar 24% og erlendir fjárfestar um 11%.