Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Mikilvægt að hindra að svona komi fyrir aftur

16.06.2021 - 19:00
Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson / RÚV
Landspítalinn er í megindráttum sammál niðurstöðum skýrslu Embættis landlæknis á hópsýkingunni á Landakoti í október. Framkvæmdastjóri lækninga segir mikilvægt að bæta úr á spítalanum til að hindra að svona komi upp aftur. 

Í skýrslu Embættis landlæknis, sem birt var í gær, segir að mögulega hefði mátt koma í veg fyrir hluta af smitunum á Landakoti með skjótari viðbrögðum ef litið hefði á hólfaskiptingu á Landakoti sem ófullkomna og ef sýni hefði verið tekin úr öllum sjúklingum og starfsmönnum 23. október í fyrra. Þrjú smit greindust daginn áður. Hópsýkingin endaði með 150 smitum, þar af 99 á Landakoti, og fimmtán andlátum sjúklinga, þar af þrettán á Landakoti. 

„Þetta er auðvitað hörmulegur atburður og okkar starfsfólk algerlega miður sín,“ segir´Ólafur Baldursson framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum.

Fyrirsögn yfirlýsingar Landspítalans í dag er:  Landspítali í megindráttum sammála umbótaskýrslu landlæknis um hópsýkingu á Landakoti. Í henni segir að mörgum úrbótatillögum hafi þegar verið hrint í framkvæmd og er starfsfólki þakkað fyrir störf sín við fordæmalausar aðstæður í heimsfaraldri. Ábendingar í landlæknisskýrslunni séu í aðalatriðum réttmætar. 

„Það er mikill samhljómur með skýrslu landlæknisembættisins og þeirri skýrslu sem var unnin strax eftir þessa atburði á Landspítalanum. Og fyrir mér og fyrir okkur þá er það kannski þungaviktarmálið núna. Það er að nýta þessar ágætu skýrslur til umbóta til þess að hindra að svona hlutir geti gerst aftur.“

Í landlæknisskýrslunni segir að þrátt fyrir vitneskju um ófullkomna sóttvarnahólfaskiptingu á Landakoti hafi verið ákveðið að skima bara á þeim tveimur deildum þar sem smitin komu upp. 

„Þetta er eitt af þeim atriðum sem við erum að skoða sem hluta af okkar umbótum.“
 
Í skýrslunni er bent á að sýkingavarnareglur eða gæðaskjöl um COVID á spítalanum séu á íslensku og að fjórir af hverjum tíu starfsmönnum  á Landakort séu af erlendum uppruna. 

„Þetta er auðvitað bara mjög gagnlegur punktur fyrir okkur að fá og eitthvað sem þarf að laga og er þegar byrjað að vinna í,“ segir Ólafur. 

Bráðabirgðaskýrslu Landpítalans frá 13. nóv. 2020 sem Ólafur vísar í má finna hér.