Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Helmingur fullbólusettur – 104 börn komin með bóluefni

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sögulegum áfanga var náð í gær í bólusetningum við COVID-19. Búið er að fullbólusetja nærri 50 prósent þeirra sem á að bólusetja. Rúmlega 231 þúsund hafa fengið að minnsta kosti einn skammt, þar af 104 börn sem hafa fengið fyrri sprautuna af bóluefni Pfizer. Stjórnvöld stefndu að afléttingu allra takmarkana innanlands þegar 75 prósent hefðu fengið fyrri sprautuna. Því takmarki hefur verið náð en Delta-afbrigðið virðist setja strik í reikninginn.

Þótt tölfræðisíðan yfir COVID-19-smit sé ekki uppfærð nema tvisvar í viku gildir annað um bólusetningarsíðuna. Hún var uppfærð klukkan 11 í morgun og þar sést að bólusetningaglasið, sem aldrei ætlaði að fyllast, er nú að verða fullt.

Búið er að fullbólusetja 145 þúsund manns eða helming allra sem eru 16 ára og eldri. 231 þúsund hafa fengið að minnsta kosti einn skammt, eða 78 prósent af þeim 295 þúsundum sem til stendur að bólusetja.  Heilbrigðisráðherra hefur sagt að allir, 16 ára og eldri, eigi að hafa fengið boð í bólusetningu þann 25. júní.

Samkvæmt afléttingaráætlun stjórnvalda áttu 75 prósent þeirra sem til stendur að bólusetja að vera búin að fá að minnsta kosti einn skammt í síðari hluta júní. Um leið og því markmiði yrði náð átti að aflétta öllum takmörkunum innanlands. Í smáa letrinu stóð þó að þetta væri háð mati sóttvarnalæknis og stöðu farsóttarinnar á hverjum tíma.  

Og hér, eins og annar staðar, fylgjast yfirvöld grannt með útbreiðslu Delta-afbrigðisins svokallaða sem fyrst greindist á Indlandi. Það er talið meira smitandi og getur valdið alvarlegri veikindum.

Bretar hafa til að mynda frestað „frelsisdeginum“, sem átti að vera 21. júní, um fjórar vikur. Sérfræðingar vöruðu ríkisstjórnina við því að ef allt yrði opnað  gæti ný bylgja smita skollið á landið.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, viðraði áhyggjur sínar af þessu afbrigði í síðasta minnisblaði sínu til heilbrigðisráðherra.

Þar benti hann á að afbrigðið væri í mikilli sókn erlendis og virtist vera að valda nýjum bylgjum. Því væri mikilvægt að fara varlega í tilslakanir núna þar til meiri útbreiðsla bólusetninga hefði náðst hjá aldurshópum undir 50 ára. 

Hann áréttaði jafnframt að það gæti tekið þrjár vikur fyrir bóluefni að veita einhverja vörn eftir fyrstu sprautu. „Mikil tilslökun á fjöldatakmörkunum getur gefið þau röngu skilaboð út í samfélagið að faraldrinum sé lokið og það getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér hvað varðar útbreiðslu COVID-19,“ skrifaði sóttvarnalæknir.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV