Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hæstiréttur: Refsing fyrir nauðgun of væg í Landsrétti

16.06.2021 - 15:10
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Hæstiréttur telur að dómur Landsréttar yfir tveimur mönnum fyrir nauðgun hafi verið of vægur og þyngdi í dag refsingu þeirra úr tveimur árum í þrjú og hálft ár. Mennirnir tveir, Lukasz Soliwoda og Tomasz Walkowski, voru jafnframt dæmdir til að greiða stúlkunni hærri miskabætur en Landsréttur ákvað, eða samtals 3,6 milljónir króna.

Landsréttur mildaði dóminn yfir mönnunum á þeim forsendum að verulegar tafir hefðu orðið á meðferð málsins hjá ákæruvaldinu. Ríkissaksóknari sagði í málskotsbeiðni sinni til Hæstaréttar að ákvörðun Landsréttar um refsingu mannanna hefði verið ákveðin „til muna of væg“.

Hæstiréttur segir í dómi sínum að aðeins verði að nokkru litið til þeirra tafa sem urðu á málinu.  Dómurinn bendir á að mennirnir hafi hvorki setið í gæsluvarðhaldi né sætt farbanni og ekki hafi liðið of langur tími frá því að málið barst héraðssaksóknara og þar til ákæra var gefin út. Málið hafi síðan hlotið eðlilegan framgang á þremur dómstigum.

Hæstiréttur segir að brot mannanna hafi verið framin við auðmýkjandi aðstæður gagnvart stúlku sem var þá barn að aldri. Þeir hafi brotið gegn kynfrelsi hennar og brotin hafi staðið yfir í nokkuð langan tíma.  Hún hafi jafnframt verið í enn viðkvæmari stöðu þar sem hún hafi verið greind á einhverfurófi. „Telja verður að það hafi leitt til alvarlegri afleiðinga.“

Hæstiréttur telur að horfa verði til alvarleika brota mannanna gagnvart barni og þeirrar refsingar sem liggi við háttsemi þeirra.  Voru þeir því dæmdir í þriggja og hálfs árs fangelsi. 

Mennirnir voru ákærðir fyrir að beita stúlkuna ólögmætri nauðung með því að notfæra sér ölvunarástand hennar og yfirburðastöðu sína, þar sem stúlkan var stödd með ókunnugum mönnum fjarri öðrum. Mennirnir nýttu sér auk þess yfirburðastöðu sína gagnvart stúlkunni sökum aldurs- og þroskamunar.

Töluverð umræða hefur verið um dóma Landsréttar í kynferðisbrotamálum. Lögmenn sem fréttastofa ræddi við í maí sögðu það sína tilfinningu að Landsréttur virtist gera strangari kröfur um sannanir í slíkum málum en Hæstiréttur.  Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, gagnrýndi í Fréttablaðinu að dómstólar virtust eingöngu láta sakborning njóta þess ef tafir hefðu orðið á meðferð máls hjá ákæruvaldi og dómstólum.