Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Dagur mótfallinn styttingu opnunartíma skemmtistaða

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í Reykjavík telur ekki rétt að opnunartími skemmtistaða verði styttur varanlega. Lögregla hefur kallað eftir slíkum breytingum.

Fréttablaðið greinir frá þessu í dag en lögregla hefur kallað eftir því að sá opnunartími sem gilt hefur í kórónuveirufaraldrinum verði innleiddur til frambúðar.

Haft er eftir Degi að hættan við að stytta þann tíma sem skemmtistaðir mega vera opnir sé sú að skemmtanahald færist út á götur og torg. Hann myndi hins vegar fagna því ef fólk ákvæði sjálft að byrja fyrr að skemmta sér og halda fyrr heim líkt og gerst hefur að undanförnu.

Borgastjóri kveðst ekki hafa fengið formlegt erindi frá lögreglu um viðræður varðandi breytingu opnunartímans en hann telur að stytting auki ekki endilega öryggi. Dagur segir Reykjavíkurborg vilja öruggt skemmtanalíf.