Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Á ekki að setja í uppþvottavél, að læknisráði

16.06.2021 - 17:00
Mynd: Wendelin Jacober / Pexels
Endurhæfing þeirra sem finna fyrir verstu COVID-eftirköstunum fer fram á þremur stöðum, á Reykjalundi í Mosfellsbæ, Heilsustofnun Náttúrulækningafélagsins í Hveragerði og á Kristnesspítala í Eyjafjarðarsveit.  Meðferðin er í stórum dráttum svipuð, í upphafi er andleg og líkamleg heilsa könnuð og meðferðin sniðin að stöðu hvers og eins.

Stefán Yngvason, framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi, segir að talið sé að fjórðungur þeirra sem hafi fengið COVID glími við langvinn einkenni. Það sé hærra hlutfall en oft eftir veirusýkingar. Nú eru 23 í COVID-endurhæfingu á Reykjalundi, 57 hafa verið útskrifaðir og 21 hefur fengið tíma í endurhæfingu. Fjörutíu og þrír bíða eftir tíma og gert er ráð fyrir að þeir komist að með haustinu, segir Stefán.

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
COVID-endurhæfing í sundlauginni á Reykjalundi.

Á Kristnesi hafa nokkrir þurft á endurhæfingu að halda vegna langvarandi einkenna, segir Alice Harpa Björgvinsdóttir, framkvæmdastjóri lyflækningasviðs á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þangað hafi ekki borist margar beiðnir um COVID-endurhæfingu.

Á Heilsustofnun Náttúrulækningafélagsins er Birna Guðmundssdóttir framkvæmdastjóri lækninga. Endurhæfingin í Hveragerði hófst í haust og um 30 manns hafa lokið þar endurhæfingu.

„Á hverjum tíma hafa kannski verið 3-6 í post covid-endurhæfingu, 3-6 í hverjum mánuði,“ segir Birna. „Rúmlega 30 búnir, við höfum fengið um það bil 50 beiðnir. Við reynum að taka þetta fólk í svolitlum forgangi, að minnsta kosti þá sem eru svolítið illa haldnir.“

Það ætti ekki að vera mikil bið fyrir þá sem þurfa að komast að í endurhæfingu á Heilsustofnun vegna COVID, að sögn Birnu og að auki verði plássum fjölgað í haust. Hún telur árangur meðferðarinnar nokkuð góðan, heilsa fólks er metin að nýju við útskrift og borin saman við niðurstöður frá upphafi meðferðar. 

„Þannig að við erum með tölur um árangurinn og flestir ná býsna góðum árangri en mismunandi vissulega,“ segir hún. „Að minnsta kosti fær fólk ráðleggingar með sér hvernig það á að haga sér þegar það klárar hérna hjá okkur. Fólk kemur til okkar í mánaðardvöl, það er að segja það er lagt inn á Heilsustofnun í mánuð og þess vegna hentar þessi meðferð hjá okkur mjög vel hjá þeim sem hafa mikla þreytu eða mikla síþreytu.“

Eru margir mjög illa haldnir?

„Já, það eru býsna margir nokkuð illa haldnir. Við tökum yfirleitt við fólki sem ekki hefur jafnað sig þremur mánuðum eftir veikindin. Það er í rauninni ekki óeðlilegt að það taki allt að þrjá mánuði að jafna sig eftir slæma veirusýkingu. En ef að fólk er enn illa statt þremur mánuðum seinna, þá fer það í forgang til okkar. Þetta er náttúrulega oft fólk á vinnufærum aldri og þarf meðferð til að komast aftur af stað út í lífið og vinnu og annað.“

Birna segir að þeir sem leiti á Heilsustofnun vegna langvinnra eftirkasta COVID séu á frekar breiðu aldursbili, sá yngsti rúmlega þrítugur og sá elsti tæplega níræður. Meðalaldurinn sé um 56 ár. Um 20% þeirra sem hafa leitað til stofnunarinnar vegna COVID höfðu verið lagðir inn á spítala vegna sjúkdómsins.

„Flest af þessu fólki var töluvert veikt, þeir sem hafa þessi alvarlegu eftirköst. En þó ekki alveg allir. Það eru alveg dæmi um það að fólk veiktist ekkert sérstaklega mikið en er með þessi erfiðu eftirköst mánuðum saman,“ segir hún. 

Í sama streng tekur Stefán Yngvason á Reykjalundi. Þangað hefur bæði leitað fólk sem hefur orðið mjög veikt, en einnig þeir sem hafa fengið langvinn einkenni eftir fremur lítil veikindi. Á Reykjalundi er verið að safna gögnum í rannsókn og til stendur að fylgja fólki eftir. 

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Þolpróf á Reykjalundi.

Birna Guðmundsdóttir á Heilsustofnun segir ótrúlega algengt að fólk sem sé óeðlilega þreytt hafi reynt að þjálfa sig og æfa, en örmagnast og jafnvel lagst í rúmið í einhverja daga eftir að hafa ofgert sér. Og við það fari því jafnvel aftur. 

„Þess vegna er svona mikilvægt að fá þetta duglega fólk sem er alltaf að reyna að koma sér í gang aftur, í meðferð sem fyrst til að kenna þeim hvernig það á að haga sér svo að það sé ekki alltaf að klessa á vegg og jafnvel að eiga á hættu að fara aftur,“ segir hún. 

Birna minnir á að einkenninn geti verið alls konar. „Það er algengt að vera með hjartsláttartruflanir, margir eru með langvarandi mæði, tala um sviða í öndunarfærum og svo þetta sem við höfum svo oft heyrt eins og með brenglun á bragð- og lyktarskyni. Heilaþoka er algeng, fólk man ekkert, fólk er með einbeitingarskort. Allt þetta sem eru einkenni á síþreytu og öll þessi einkenni geta magnast upp og orðið verri ef fólk er að ofgera sér.“ 

Því er fólki kennt svokölluð virkniaðlögun. Þá er fólki kennt að forgangsraða og stjórna því í hvað andleg og líkamleg orka þess fer. 

Eru margir sem koma til ykkar með samviskubit og finnst þeir vera óttalegir aumingjar?

„Já, ég get alveg sagt það. Það er oft sem að fólki finnst það og sérstaklega er það fólk í yngri kantinum. Fólk er með fjölskyldu og vill geta haldið áfram í vinnunni og svona. Og það skilur ekki, því finnst eins og það eigi ekkert að vera að því, en svo nær það sér ekki, það nær ekki upp þrekinu, það er alltaf að lenda í basli og finnst þetta náttúrulega alveg galið, hvaða aumingjaskapur er þetta.“

Birna segir að það sé mikilvægast að geta forgangsraðað því sem mestu máli skiptir í lífi fólks. Hún nefnir nýlegt dæmi um unga konu sem var óvinnufær og á lítil börn. 

„Það sem ég sagði henni, þegar hún kláraði dvölina hjá okkur var: „Þú átt ekki að setja í uppþvottavélina eða taka til eða þrífa heima,“ því hún var svo illa stödd að hún þurfti að setja í forgang að bara geta talað við börnin sín, að geta verið til staðar.“ 

ragnhildurth's picture
Ragnhildur Thorlacius
Fréttastofa RÚV