Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vonbrigði hvað breiddist mikið út inni á Landakoti

15.06.2021 - 18:18
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV
Alma D. Möller landlæknir segir vonbrigði hvað útbreiðsla kórónuveirusmita hafi verið mikil í hópsýkingunni á Landakoti í fyrra, þegar fimmtán létust. Orsakir hennar eru meðal annars ófullkomin hólfaskipting, ófullnægjandi fræðsla starfsmanna og skortur á sýnatöku. 

15 létust og 150 smituðust

Úttekt landlæknis á einu alvarlegasta atviki sem orðið hefur í heilbrigðisþjónustu hérlendis, COVID-hópsmitinu á Landakoti, var birt í dag. Samkvæmt henni fór margt úrskeiðis í undirbúningi og viðbrögðum, auk þess sem húsakostur var ófullnægjandi. 

Þann 22. október í fyrra greindust tveir starfsmenn og einn sjúklingur á Landakoti með kórónuveirusmit. Og þá var komin upp hópsýking. Þessi smit dreifðust líka á Reykjalund og Sólvelli. Og samtals smituðust 150 manns, þar af 99 á Landakoti. Auk þess smituðust nokkrir aðstandendur sjúklinga og starfsmanna. Samtals létust fimmtán, þar af þrettán sjúklingar á Landakoti. 

Smitin hefðu orðið færri ef allt hefði verið fullkomið

Hefði verið hægt að koma í veg fyrir einhver smit eða andlát ef öðruvísi hefði verið staðið að?

„Það er auðvitað mjög erfitt að segja. Og ég held að hefði verið ómögulegt að hindra að veiran kæmi inn á spítalann eins og staðan var í samfélaginu. En það eru auðvitað vonbrigði hvað útbreiðslan varð mikil og það eru margir samverkandi þættir. En ef að allt hefði verið fullkomið þá hefðu smitin án efa orðið færri,“ segir Alma D. Möller landlæknir. 

Nokkrir samverkandi þættir ollu því að því fór sem fór

Hópur starfsfólks hjá Embætti landlæknis ásamt Haraldi Briem fyrrverandi sóttvarnalækni hefur unnið að úttekt síðan í nóvember eftir að Landspítalinn birti bráðabirgðaskýrslu sína. 

Helstu orsakaþættir útbreiðslu hópsýkingarinnar á Landakoti eru samkvæmt rannsókninni: Ófullkomin hólfaskipting, ófullnægjandi fræðsla og þjálfun starfsmanna og eftirlit með fylgni við gæðaskjöl eða sýkingavarnareglur, skortur á sýnatökum meðal sjúklinga og starfsfólks, og ófullnægjandi húsakostur og loftræsting, og annmarkar í viðbrögðum. 

Aðeins sýnatökur á tveimur deildum í fyrstu

Sóttvarnahólf á Landakoti virkuðu ekki sem skyldi því sameiginlegir snertifletir voru margir. Þegar fyrstu smitin voru greind 22. október voru aðeins sýnatökur á þeim tveimur deildum, þeim deildum þar sem smit greindust. 

„Þarna eru menn aftur að treysta á hólfaskiptinguna og skoða hverja deild fyrir sig í staðinn fyrir kannski að líta á spítalann sem eina heild og skima alla strax. Það tók fjóra fimm daga þar til því var lokið.“

Upplausnarástand og ringulreið

Vísað er í lækna af öðrum deildum Landspítalans sem komu tímabundið til starfa í hópsýkingunni. Þeir sögðu m.a. fjórum dögum eftir fyrstu smit ríkti ringulreið og upplausnarástand, engin áætlun virtist til varðandi viðbrögð og einangrun sjúklinga og skilaboð hjá stjórnendum þóttu ekki nógu skýr. Læknarnir lýstu því líka hvernig sumt starfsfólk virtist ekki kunna að fara í og úr hlífðarbúningum. 

Vantar eftirfylgni

Var einhver brotalöm í stjórnun? 

„Það er ekki gott að segja en eins og ég segi þá var mjög margt búið að gera en það skorti kannski á eftirlit með að mikilvægum ferlum væri fylgt. Og ég held að þetta sé sóknarfæri mjög víða í heilbrigðiskerfinu. Það er boðið upp á námskeið, það eru gefnar út leiðbeiningar en það vantar að ganga á eftir því að fólk virkilega fylgi þeim og sæki námskeiðin.“  

Margar ábendingar um úrbætur eru lagðar til í skýrslunni: 

„Og síðan hyggjumst við fylgja því eftir að það sé gripið til þeirra úrbóta sem okkur finnst og auðvitað eigum við það í samtali við Landspítala. 

Starfsfólk ætti að fá viðeigandi stuðning vegna atviksins

Í skýrslulok er tekið fram að atburðurinn hafi haft mikil áhrif og starfsfólk og stjórnendur og mikilvægt að Landspítalinn hlutist til um að þeir fái viðeigandi stuðning. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Sigurður Þórisson - RÚV
Orskaþættir útbreiðslu hópsýkingar af völdum SARS-CoV-2 á Landakoti í október 2020.