Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hátt í þúsund New York-búar fengu útrunnið Pfizer-efni

15.06.2021 - 18:39
Mynd með færslu
 Mynd: Flickr - Sam Valadi
Um 900 New York-búar fengu útrunninn skammt af bóluefni Pfizer í byrjun mánaðarins. Þetta kom í ljós í dag, rétt eftir að Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York-ríkis, tilkynnti að nú hefðu 70 prósent íbúa fengið bólusetningu og því væri tímabært að aflétta öllum samkomutakmörkunum.

Fólkið var allt bólusett í NFL Experience-byggingunni á Times Square og hefur nú verið boðað í bólusetningu að nýju. Fyrirtækið sem sá um bólusetninguna gaf út yfirlýsingu í dag um að engin hætta stafaði af efninu, þrátt fyrir að það hefði verið útrunnið. 

Cuomo sagði í dag að nú væri kominn tími til að lífið í New York yrði aftur eins og það var áður en faraldurinn skall á. Öllum samkomutakmörkunum yrði aflétt tafarlaust og reglur um nálægðartakmörk giltu ekki lengur. Áfram yrði þó grímuskylda í skólum, neðanjarðarlestum, sjúkrahúsum og víðar. 

Um það bil 70 prósent New York-búa hafa fengið bólusetningu en aðeins um helmingur er fullbólusettur. Í kringum 450 manns greinast með COVID-19 í ríkinu dag hvern, færri en nokkurn tímann síðan faraldurinn skall fyrst á.