Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Góður sigur Íslands gegn Írlandi

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Góður sigur Íslands gegn Írlandi

15.06.2021 - 18:57
Eftir markalausan fyrri hálfleik mætti Íslenska liðið mjög ákveðið til leiks í seinni hálfleik og tryggði sér 2-0 sigur með mörkum frá Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur og Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur.

Ísland mætti Írlandi á Laugardalsvelli í dag en þetta er annar leikur liðanna á fimm dögum. Ísland vann fyrri leikinn 3-2 eftir að hafa verið 3-0 yfir í hálfleik en Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Íslands, gerði fimm breytingar á byrjunarliðinu fyrir leikinn í dag.

Fyrri hálfleikur var afskaplega rólegur í Laugardalnum. Besta færi íslenska liðsins kom á 35. mínútu þegar Berglind Björg Þorvaldsdóttir slapp ein í gegn en markvörður Íra varði vel. Ísland byrjaði seinni hálfleikinn mjög vel. Berglind Björg átti góða sendingu á Sveindísi Jane sem var komin í mjög gott færi en hún missti boltann aðeins of langt frá sér. 

Á 53. mínútu átti Andrea Rán góða sendingu inn í teig þar sem varnarmenn Íra misreiknuðu flugið á boltanum sem barst á Berglindi sem náði að pota honum í netið eftir baráttu við markmann írska liðsins. 

Þegar sjö mínútur voru til leiksloka gulltryggði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir sigur Íslands. Hún rakti þá boltann í átt að vítateigshorninu og skoraði með góðu skoti.