Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Gagnrýndi Play í ávarpi á formannafundi ASÍ

15.06.2021 - 14:59
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Drífa Snædal, forseti ASÍ, gagnrýndi hið íslenska flugstéttarfélag, ÍFF, og flugfélagið Play í ávarpi forseta á formannafundi Alþýðusambands Íslands sem hófst klukkan 11 í dag. Drífa sagði aldrei hafa verið mikilvægara að vera með sterka verkalýðshreyfingu, sterk stéttarfélög og sterk heildarsamtök nú þegar harðnað hefur á dalnum.

„Fólki er beint og óbeint bannað að vera í stéttarfélögum eða það sannfært um að stéttarfélög séu ekki til hagsbóta fyrir launafólk. Fyrirtæki hafa einnig tekið yfir stéttarfélög eða stofnað sín eigin félög,“ sagði Drífa í ræðu sinni. Andað hefur köldu á milli forystu ASÍ og flugfélagsins Play undanfarið. ASÍ hefur sagt að samanburður kjarasamninga sýni að laun hjá Play séu mikið lægri en laun fyrir sambærileg störf hjá Icelandair.

Ræddi Play og ÍFF

Drífa gerði viðskiptahætti Play, áður WAB, að dæmi í ræðu sinni. Hún sagði að í fundargerðum ÍFF, hins íslenska flugstéttafélags, kæmi fram að eftir fall flugfélagsins WOW air hefði félagið, sem þá var félag flugmanna hjá WOW, breytt samþykktum þannig að þeim varð unnt að semja fyrir hönd flugfreyja og flugþjóna.

„Undirritaðir eru samningar áður en flugfreyjur og -þjónar gengu í félagið og „We Are Back“ byrjar að kynna sig fyrir fjárfestum sem „fyrsta íslenska lággjaldaflugfélagið“ og að launakostnaður flugstétta verði á bilinu 20-40% lægri en var hjá WOW air. WAB er síðan breytt í Play sem tekur yfir þessa ömurlegu kjarasamninga og stærir sig af þeim. Við reyndum lengi að fá afrit af kjarasamningunum en ÍFF neitaði að láta þá af hendi. Sem betur fer höfum við þá nú undir höndum og vitum hvernig launakjörin líta út. Flugmennirnir seldu flugfreyjur og flugþjóna í örvæntingarfullri tilraun til að skapa sér áframhaldandi atvinnu. Kynjavinkilinn er sláandi,“ sagði Drífa. Nauðsynlegt væri að verja íslenska módel verkalýðsfélaga fram í rauðan dauðann. ASÍ stígi fast til jarðar í máli Play og hafi lagt fram ályktun um svokölluð gul stéttarfélög.

„Ef við gerum það ekki þá get ég sannfært ykkur um að fleiri fyrirtæki fylgja í kjölfarið og leika þennan sama leik og Play er að gera núna. Við höfum heldur ekki gleymt hótunum Icelandair síðasta sumar í erfiðum samningaviðræðum við flugfreyjur og flugþjóna.“

Fyrirlitning í því að segja bætur of háar

Drífa ræddi einnig umræðuna um að bætur séu of háar hér á landi og hvati til vinnu þar af leiðandi of lítill. Í þessari orðræðu felist fyrirlitning álíka þeirri þegar „atvinnurekendur beinlínis unnu gegn því að hækka atvinnuleysisbætur í upphafi niðursveiflunnar.“ 

„Þetta er hættulegt viðhorf og engum til framdráttar þegar fram í sækir.“

 

Andri Magnús Eysteinsson