Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fyrsta vél Play komin

15.06.2021 - 19:58
Mynd: Haukur Holm / RÚV
Fyrsta vél flugfélagsins Play lenti á Keflavíkurflugvelli síðdegis og var tekið á móti henni með viðhöfn. Fyrsta áætlunarflugið verður í næstu viku.

Vélin er af Airbus gerð og var flogið hingað frá Texas í Bandaríkjunum þar sem hún var máluð í litum félagsins, teppalögð og gerð klár. Áður en hún lenti á Keflavíkurflugvelli var flogið yfir höfuðborgarsvæðið. Þegar hún lenti í Keflavík beið flugvallarslökkviliðið og var vatni sprautað í boga yfir hana eins og venja er við tækifæri sem þetta. Hluti af starfsfólki Play á Keflavíkurflugvelli beið spennt eftir vélinni. 

„Hún lítur mjög vel út, fyrsta vélin. Þetta er mikill gleðidagur í sögu félagsins að fyrsta vélin sé komin til landsins, fyrsta af þremur,“ segir Snorri Birgisson forstöðumaður öryggissviðs Play.

Næsta vél kemur um mánaðamótin og sú þriðja í júlí. Í dag er nákvæmlega einn mánuður frá því að Play fékk flugrekstrarleyfi. Vélin sem kom í dag er svo gott sem tilbúin, aðeins þarf að huga að einu og öðru áður. Snorri segir að bókanir séu góðar og að þjálfun áhafna hafi gengið vel.

„Þjálfun hefur gengið framar vonum hjá okkur, reynslumikið fólk sem sótti um störf hjá okkur og kemur til með að vinna um borð í þessum vélum.. Námskeiði lauk í síðustu viku á fyrsta hópnum og við erum mjög spennt að fá þau öll til starfa.“