Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Félag Ratcliffes fjárfestir fyrir 4 milljarða

Tölvugerð mynd af fyrirhuguðu lúxusveiðihúsi Six Rivers Project við  Hofsá, en einn aðstandanda þess er Sir Jim Ratcliffe sem hefur verið atkvæðamikill jarðakaupandi á Norð-Austurlandi.
 Mynd: Six Rivers Project
Six Rivers Conservation Project kynnti í dag fyrirætlanir um byggingu fjögurra nýrra og vel búinna veiðihúsa við ár verkefnisins á Norðausturlandi. Meðal bakhjarla félagsins er kaupsýslumaðurinn Jim Ratcliffe sem undanfarin ár hefur verið atkvæðamikill í jarðarkaupum á Norð-Austurlandi.

Verndun Norður-Atlantshafslaxstofnsins

Í nágrenni laxveiðiáa í umsjá Six Rivers Project á Norðausturlandi verða byggð fjögur ný veiðihús með fjárfestingu sem nemur allt að 4 milljörðum króna. Uppbyggingin er hluti af langtímamarkmiði verkefnisins um að gera verndarstarf félagsins sjálfbært en það miðar að því að snúa við hnignun Norður-Atlantshafslaxstofnsins.

Umsvifamikil viðskipti með jarðir

Byggð verða ný veiðihús við Miðfjarðará í Bakkafirði, Hofsá og í Vesturárdal, auk þess sem rísa mun viðbygging við veiðihús Six Rivers Project við Selá í Vopnafirði. Uppbyggingin kallar ekki á frekari jarðakaup, en Jim Ratcliffe hefur verið umsvifamikill kaupandi jarða á Norð-Austurlandi og á þar réttindi á alls 41 jörð. Eru landareignir hans sem nemur um 1,4% af heildarflatarmáli Íslands.

Öllum veiddum fiski skal sleppt

Veiðihúsin nýju eiga að laða að laxveiðimenn hvaðanæva að sem láta sig viðgang og verndun Norður-Atlantshafslaxins varða. Stefnt er að uppbyggingu sjálfbærs rekstrar með fastri reglu um að öllum veiddum fiski sé sleppt og allur ágóði rennur til verndarstarfsins. 

Búist við frekari fjárfestingu

Í tilkynningu frá Six Rivers Project er tekið fram að veiðifélögin á svæðinu beri ekki neinn kostnað af framkvæmdinni. Er þess vænst að veiðihúsin fjölgi störfum á svæðinu og laði að frekari fjárfestingu í þjónustu við ferðamenn á Norðausturlandi.

Tekjurnar til frekara verndarstarfs

„Framkvæmdirnar sýna á skýran máta markmið okkar um verndun Norður-Atlantshafslaxins í ánum á Norðausturlandi. Með byggingu veiðihúsa af bestu gerð á þessum afskekkta hluta landsins vonumst við til að búa gestum okkar einstaka reynslu við stangveiðar. Tekjurnar af þeirri starfsemi ganga svo til fjármögnunar áframhaldandi verndarstarfs,“ segir Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Six Rivers Project.

Meðfylgjandi mynd er tölvugerð og sýnir fyrirhugað veiðihús við Hofsá.