Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Farið verði eftir ráðgjöf vísindanna

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir að þrátt fyrir að nýjar tillögur Hafrannsóknastofnunar samdrátt upp á milljarða fyrir þjóðarbúið telji hún rétt að fara eftir veiðiráðgjöf stofnunarinnar.

Hafrannsóknastofnun leggur til 13 prósenta minni veiði á þorski á næsta fiskveiðiári með aflamark við 223.000 tonn. Samdrátturinn nemur 17 til 18 milljörðum króna og hefur þessi niðurstaða valdið sjávarútvegsfyrirtækjum vonbrigðum. 

Vísindin skilað árangri hingað til

„Þetta eru stór og erfið tíðindi en við mælumst þó til þess að farið verði eftir ráðgjöf vísindanna,“ sagði Heiðrún Lind í kvöldfréttum RÚV. „Það er það sem hefur skilað okkur árangri hingað til og við verðum áfram að treysta á vísindalega ráðgjöf ef við ætlum að halda þorskstofninum sterkum.“

Tveir mánuðir teknir úr ári

Heiðrún Lind bætti við að til að setja samdrátt um 34.000 tonn í þorski í samhengi þá jafngilti það lönduðum afla eins til tveggja mánaða. „Það þýðir í raun að tveir mánuðir eru teknir úr árinu í fiskveiðum.“

Áhyggjur af stöðu hafrannsókna við Ísland

Heiðrún Lind nefndi ennfremur að það væri tilfinning og reynsla hennar og samstarfsfólks hjá SFS að Ísland væri að dragast aftur úr í hafrannsóknum. Öllu skipti að Ísland myndi ekki sitja eftir þegar kæmi að þeirri starfsemi sem lægi til grundvallar gervallri greininni, sjálfum hafrannsóknunum.  

Jón Agnar Ólason