Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fá ekki að fara til Bandaríkjanna vegna spillingar

15.06.2021 - 14:11
Mynd með færslu
 Mynd: The Namibian
Bandaríska utanríkisráðuneytinu hefur bannað tveimur fyrrverandi ráðherrum í Namibíu að koma til landsins vegna spillingar. Þetta eru þeir Bernhardt Esau og Sacky Shangala sem hafa báðir verið ákærðir fyrir spillingu, fjársvik og peningaþvætti í tengslum við Samherjaskjölin.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá bandaríska utanríkisráðuneytinu. Bannið nær einnig til fjölskyldu Esau.

Ráðuneytið segir spillingu ráðherranna hafa veikt trú fólks á lýðræðislegum stofnunum og réttarríkinu því ráðherrarnir hafi beitt pólitískum áhrifum, sjálfum sér til hagsbóta.

„Aðgerðirnar staðfesta stuðning Bandaríkjanna við stjórnvöld í Namibíu til að uppræta spillingu sem er nauðsynlegt fyrir framtíð landsins. Bandaríkin standa með öllum þeim Namibíumönnum sem vilja verja lýðræðið og réttarríkið og þau styðja áframhaldandi baráttu gegn þeim sem reyna að grafa undan þessum gildum.“

Ráðherrarnir tveir eru meðal sex sakborninga í spillingarmáli í Namibíu og var meðal annars til umfjöllunar í fréttaskýringaþættinum Kveik um Samherjaskjölin.

Í umfjöllun namibískra fjölmiðla hefur komið fram að þeir hafi hagnast persónulega á fiskveiðisamningum sem þeir gerðu. Þeir eru taldir hafa átt þátt í því að svíkja 75,6 milljónir dollara út úr ríkisfyrirtækinu Fischor og hafa notað embætti sitt og stöðu sína hjá hinu opinbera til að verða sér úti um umbun.

Þeim er meðal annars gefið að sök að hafa tekið á móti greiðslum upp á 103 milljónir namibíudollara frá sjávarútvegsfyrirtækjunum Mermaria Seafood Namibia og Esja Seafood sem bæði eru í eigu Íslendinga.

Greiðslurnar eru sagðar hafa náð yfir tímabilið 2014-2019 og áttu að tryggja áframhaldandi fiskikvóta fyrir bæði fyrirtækin.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV