Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Danskir hjúkrunarfræðingar tilbúnir í langt verkfall

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Allt stefnir í að á sjötta þúsund danskra hjúkrunarfræðinga fari í verkfall næstkomandi laugardag.Talið er mögulegt að verkfallið dragist á langinn og því er hart lagt að stjórnmálamönnum að láta það ekki gerast.

Það getur orðið þess að fresta þarf innlögn og aðgerðum þúsunda sjúklinga en digur verkfallssjóður getur dugað hjúkrunarfræðingunum í átta vikur. Áhrifa verkfallsins mun gæta um allt land.

Um það bil tíu prósent hjúkrunarfræðinga hafa boðað verkfall en sjóðurinn nemur um 504 milljónum danskra króna.

Ríflega 64% félagsmanna í stéttarfélagi hjúkrunarfræðinganna, Dansk Sygeplejeråd, felldu nýjan kjarasasamning en 34% vildu samþykkja hann. Mikil kjörsókn var í atkvæðagreiðslunni.

Grete Christensen, formaður stéttarfélagsins segir niðurstöðuna senda skýr skilaboð til atvinnurekenda og danska þingsins. Danska ríkisútvarpið greinir frá þessu á vef sínum en Christensen vill ekki áætla hve lengi verkfallið kunni að vara.

Jafnvel er talið að það verði lengra en síðasta verkfall árið 2008 sem stóð yfir í sjö vikur. Christensen, sem þá var varaformaður samtakanna, segir þá hafi hjúkrunarfræðingar náð því sem mögulegt var út úr samningum en hefðu þeir fengið nóg þá stæðu þeir ekki í launabaráttu nú.

Hörð krafa er úr mörgum áttum á ríkisstjórnina að sjá til þess að verkfallið dragist ekki á langinn líkt og gerðist fyrir 13 árum. Nana Wesley Hansen, vinnumarkaðssérfræðingur við Háskólann í Kaupmannahöfn, telur einboðið að lausn deilunnar þurfi að koma frá ríkisstjórninni.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV