Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Biðja um rannsókn á sprengingunni í Beirút

epa08986285 A picture taken with a drone shows the destroyed port area at the six months mark since the day of the explosion, in Beirut, Lebanon, 03 February 2021 (issued 04 February 2021). At least 200 people were killed, and more than six thousand injured in the Beirut blast that devastated the port area on 04 August. It is believed to have been caused by an estimated 2,750 tons of ammonium nitrate stored in a warehouse. EPA-EFE/WAEL HAMZEH  EPA-EFE/WAEL HAMZEH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Tugir mannréttindasamtaka, þeirra á meðal Amnesty International og Mannréttindavaktin, Human Rights Watch, fara fram á að Sameinuðu þjóðirnar rannsaki ástæður mikillar sprengingar við höfnina í Beirút í Líbanon í fyrra. Heimamenn virðist ekkert ætla að gera til að varpa ljósi á málið.

Yfir 200 létust í sprengingunni 4. ágúst í fyrra og fjöldi bygginga eyðilagðist. Hundruð þúsunda misstu heimili sín. Fljótlega fór Amnesty fram á óháða rannsókn. Líbönsk stjórnvöld sögðust ætla að sjá um hana sjálf og að það væri forgangsmál að ljúka henni sem fyrst. Síðan hefur lítið gerst og líbanskir ráðamenn hafa oftar en einu sinni hafnað erlendum afskiptum af málinu.

Í bréfi sem 53 mannréttindahópar og -samtök í Líbanon og annars staðar í Miðausturlöndum ásamt alþjóðlegum samtökum senda Sameinuðu þjóðunum í dag segir að mannréttindaráð stofnunarinnar ætti að senda rannsóknarnefnd til Líbanons til að grafast fyrir um ástæður sprengingarinnar.

Komið hefur í ljós að miklar birgðir af afar eldfimu ammoníumnítrati voru geymdar í vöruhúsi við höfnina í Beirút. Enn liggur ekkert fyrir um hvort kveikt var í þeim af ásetningi eða fyrir slysni, eða hvort erlendir hryðjuverkamenn tengjast málinu. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV