Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Banna sýnileika samkynhneigðra í Ungverjalandi

epa08315631 Hungarian Prime Minister Viktor Orban delivers his speech about the current state of the coronavirus during a plenary session in the House of Parliament in Budapest, Hungary, 23 March 2020.  EPA-EFE/Tamas Kovacs HUNGARY OUT
 Mynd: EPA-EFE - MTI
Ungverska þingið samþykkti í dag lög sem banna samkynhneigðum að koma fram í barnaefni eða við sögu í kennsluefni fyrir börn yngri en 18 ára.

Talsmaður ungversku ríkisstjórnarinnar segir tilganginn með lagabreytingunni að vernda börn í landinu. Nú mega þau ein bjóða upp á kynfræðslu, sem hafa til þess sérstakt leyfi yfirvalda. Þá er fyrirtækjum bannað að auglýsa stuðning við hinsegin fólk ef börn undir 18 ára eru líkleg til að sjá auglýsingarnar.

Lögin þykja áþekk lagabreytingum í Rússlandi árið 2013 þar sem bann var lagt við hvers kyns svokölluðum áróðri samkynhneigðra í landinu.

Fjöldi Ungverja kom saman til að mótmæla lagabreytingunni, sem þau segja hættulega. Talsmaður Amnesty International í Ungverjalandi sagði þetta sorgardag í sögu hinsegin fólks í Ungverjalandi. 

Hér má lesa fréttaskýringu um þróun stjórnarfars í Ungverjalandi síðustu ár. 

Ungverjar tilheyra Evrópusambandinu og margir hafa skorað á forsætisráðherra annarra Evrópusambandsríkja að mótmæla lagabreytingunni á fundi í Lúxembúrg í næstu viku, sem Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands sækir. 
 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV