Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Umboðsmaður andar ofan í hálsmálið á Tryggingastofnun

14.06.2021 - 07:48
Mynd með færslu
Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis. Mynd: RÚV
Umboðsmaður Alþingis hefur sent félagsmálaráðherra erindi þar sem ráðherra er spurður hvort hann sé meðvitaður um mögulega breytt verklag hjá Tryggingastofnun. Umboðsmanni hafa að undanförnu borist kvartanir og ábendingar um að umsóknum frá ungu fólki sé í auknum mæli synjað á þeim grundvelli að endurhæfing sé ekki fullreynd.

Bréf umboðsmanns var birt á vef embættisins um helgina. Þar kemur fram að þegar svör ráðherrans liggi fyrir verði tekin ákvörðun um frumkvæðisathugun. 

Umboðsmaður segir að honum hafi borist erindi þar sem Tryggingastofnun hafnaði umsóknum um örorkumat á þeim forsendum að endurhæfing væri ekki fullreynd án þess að tiltekið væri hvaða endurhæfingarúrræði viðkomandi gæti nýtt sér.  

Umboðsmaður nefnir einnig mál sjúklinga sem vegna sjúkdóms séu á biðlista eftir skurðaðgerð. Þeim hafi verið synjað um örorkulífeyri þótt fyrir liggi mat læknis um að endurhæfing geti ekki hafist fyrr en að lokinni aðgerð. Hann segir sjúklinga í þessari stöðu hafa þurft að bíða tekjulausir eftir að komast í ákveðin úrræði því biðlistar séu langir.

Umboðsmaður tekur annað dæmi í bréfi sínu til ráðherra. Þar hafi umsóknum verið hafnað þrátt fyrir að fyrir liggi afstaða læknis um að frekari endurhæfingarúrræði breyti ekki stöðu viðkomandi. 

Þá segir að hann kvartað hafi verið yfir því að Tryggingastofnun synji umsóknum á þeim forsendum að endurhæfing sé ekki fullreynd þótt viðkomandi hafi lokið 36 mánaða endurhæfingu. Og að fyrir liggi staðfesting frá fag- og meðferðaraðilum um að endurhæfing sé fullreynd. 

Samkvæmt bréfi umboðsmanns eiga kvartanirnar og ábendingarnar það flestar sameiginlegt að Tryggingastofnun hafi synjað umsókn um örorkumat án þess að leggja mat á raunverulega möguleika viðkomandi á að sækja endurhæfingu. Þeir telji rannsókn stofnunarinnar hafa verið ófullnægjandi og skort hafi á leiðbeiningar.

Már Egilsson, heimilislæknir, skrifaði grein á visir.is í síðustu viku þar sem hann gagnrýndi þessi vinnubrögð Tryggingastofnunar. Umsóknum um örorkulífeyri væri hafnað með litlum sem engum rökstuðningi öðrum en þeim að endurhæfing væri ekki talin fullreynd. Þetta sagði hann vera gert þótt að baki umsókninni lægju yfirgripsmiklar greinargerðir.

Már velti því fyrir sér í greininni hvort matsaðilar Tryggingastofnunar vantreystu eða drægju í efa hæfi þeirra fagaðila sem haldi utan um endurhæfingu.

Umboðsmaður segist í bréfi sínu til ráðherra vilja vita hvort tilefni sé til að bregðast við og þá með hvaða hætti. Ef ekki, óskar hann eftir skýringum á því. Svar frá ráðuneytinu á að berast fyrir 28. júní.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV