Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Slóvakía með óvæntan sigur gegn Póllandi

epa09271174 Romanian referee Ovidin Hategan (L) shows the red card to Grzegorz Krychowiak (R) of Poland during the UEFA EURO 2020 group E preliminary round soccer match between Poland and Slovakia in St. Petersburg, Russia, 14 June 2021.  EPA-EFE/Anton Vaganov / POOL (RESTRICTIONS: For editorial news reporting purposes only. Images must appear as still images and must not emulate match action video footage. Photographs published in online publications shall have an interval of at least 20 seconds between the posting.)
 Mynd: EPA-EFE - REUTERS POOL

Slóvakía með óvæntan sigur gegn Póllandi

14.06.2021 - 17:56
Nokkuð óvænt úrslit áttu sér stað í E-riðli á EM í dag þegar að Slóvakía vann Pólland 2-1 í dag. Slóvakía komst tvisvar yfir í leiknum í dag og í stöðunni 1-1 fékk leikmaður Póllands að líta rauða spjaldið.

Pólland er talsvert ofar en Slóvakía á heimslista FIFA en gengi pólska landsliðsins hefur verið slakt að undanförnu og liðið aðeins unnið einn af síðustu fimm leikjum sínum, en eini sigur liðsins kom gegn Andorra. Í lokaleik sínum fyrir EM gerði Pólland einmitt 2-2 jafntefli gegn Íslandi.

Pólverjar byrjuðu leikinn af krafti en Slóvakar gerðu þó fyrsta mark leiksins. Robert Mak átti þá góðan sprett upp kantinn þar sem hann fór illa með varnarmenn Póllands. Hann átti svo ágætt skot í stöngina en boltinn small af stönginni og í bakið á Wojciech Szczesny og þaðan í netið. 

Pólland hélt áfram að vera meira með boltann en liðinu gekk illa að skapa sér færi og skyndisóknir Slóvakíu voru oft meira ógnandi en sóknartilburðir Pólverja. Staðan var því 1-0 fyrir Slóvakíu í hálfleik.

Það tók Pólland tæpar 30 sekúndur að skora í síðari hálfleik þegar þeir sundurspiluðu vörn Slóvakíu og eftir frábæran undirbúning var það Karol Linetty sem skoraði og staðan orðin 1-1. Pólverjar héldu áfram að sækja meira en urðu fyrir áfalli á 62. mínútu þegar Grzegorz Krychowiak fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt. Pólverjar voru því einum leikmanni færri síðustu þrjátíu mínúturnar. 

Slóvakar nýttu sér liðsmuninn því á 69. mínútu skoraði Milan Skriniar, varnarjaxl Inter á Ítalíu, með frábæru skoti eftir hornspyrnu. Pólska liðið setti aukna áherslu á sóknarleikinn eftir markið en verkefnið reyndist þeim of erfitt og Slóvakía tryggði sér stigin þrjú í Sankti Pétursborg í dag.