Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

mRNA-bóluefni gegn inflúensu, HIV og krabbameini

Mynd: aðsend mynd / aðsend mynd
Lyfjafyrirtækið Moderna er nú að þróa bóluefni með nýju mRNA-tækninni gegn inflúensu, HIV, zika-veirunni, krabbameinum og mörgu öðru. Heimsfaraldurinn hefur hraðað þessari þróun, segir Örn Almarsson efnafræðingur sem starfað hefur við þróun tækninnar hjá lyfjafyrirtækinu Moderna.

Vann fyrir Moderna við þróun bóluefna

Rætt er við Örn í Samfélaginu á Rás 1. Hann er núna yfirmaður tæknimála hjá Lyndra Therapeutics í Bandaríkjunum og býr ásamt fjölskyldu sinni í Cambridge í Massachusetts. Hann lærði efnafræði á Íslandi en fór í framhaldsnám í lífrænni efnafræði til Bandaríkjanna og hefur starfað þar síðan. Frá árinu 2013 hefur hann unnið við mRNA-tæknina, meðal annars hjá Moderna, við að þróa bóluefnið sem nú er verið að nota gegn kórónuveirunni. 

Örn hélt fyrirlestur á líf- og heilbrigðisvísindaráðstefnu Háskóla Íslands, sem haldin var í byrjun júní og talaði meðal annars um þessa nýju tækni, sem varð ekki til þegar heimsfaraldurinn hófst heldur hafði hún verið notuð til að þróa lækningu á sjaldgæfum erfðasjúkdómum. Þróun bóluefna með mRNA-tækninni hófst í Þýskalandi árið 2000 og fyrirtækið Moderna setti sína vinnu með þessa tækni af stað árið 2011.  

Tæknin á eftir að breyta miklu

Örn segir að þessi tækni eigi eftir að breyta mjög miklu, sérstaklega þegar sjaldgæfir erfðasjúkdómar eru annars vegar, en það eigi eftir að taka sinn tíma. „Það eru ekki svona aðstæður eins og komu upp á síðasta ári sem ýta svona svakalega undir þróunina.“ Staðan sé þannig núna að til eru lyf til að lækna einkenni en með þessari nýju mRNA-tækni sé verið að reyna að komast fyrir orsökina. Það taki lengri tíma að sýna fram á ágæti þess á meðan verið sé að kanna öryggi aðferðarinnar.

Bóluefni gegn krabbameini

„Ég legg áherslu á að það hefur verið töluvert af rannsóknum, sérstaklega í Þýskalandi, á mRNA-bóluefnum en líka á krabbameinslyfjum. Fyrirtækið BioNTech kom með mRNA-bóluefnið sem Pfizer er að dreifa. Hjónin sem eiga fyrirtækið eru krabbameinslæknar og þau vildu búa til ákveðnar aðferðir til þess að lækna krabbamein. Ein af þeim var bóluefni gegn krabbameini. Bóluefnið kennir ónæmiskerfinu að þekkja krabbameinsvef og vinna á móti honum, sem sagt vekja upp ónæmiskerfið.“ Þessi vinna hafi komið mjög sterkt inn og hjálpað til við að framleiða COVID-19 bóluefnin. Þannig hafi þau ekki orðið til úr þurru. 

Lyfjaefni komið eftir 42 daga

Komið hefur fram í umfjöllun um bóluefnin gegn COVID-19 að þróun þeirra hafi verið óvenjulega hröð. Örn bendir á að hún hafi ekki farið af stað þegar tilvist kórónuveirunnar var staðfest, um miðjan janúar 2020. Þá hafi genasamsetning veirunnar verið birt og ferli farið af stað til að finna út hvaða genasamsetningu á mRNA væri best að nota til að bólusetja. „Frá því augnabliki og þangað til að komið var lyfjaefni til að nota í fasa 1, það tók ekki nema 42 daga sem er fáheyrt. Það tekur yfirleitt marga mánuði að finna út úr svona löguðu. Við erum komin fasa 1 í mars og svo fasa 3 í lok júlí sem er enn þá fáheyrðara.“ Örn segir að þetta hafi verið hægt því segja megi að vísindamennirnir hafi verið búnir að æfa sig  í mörg ár. Þetta hafi verið eins og að fara á landsmót, síðan á Evrópumót og svo á Ólympíuleikana.

„Minn þáttur í þessu var að búa til pakkann sem dreifir bóluefninu í frumurnar. Og hann er notaður aftur og aftur. mRNA-samsetningin hún er stafræn. Þú getur t.d. breytt aðeins röð og búið til mjög svipað mRNA efni aftur en þá ertu enn þá að nota sömu hlutina sem þú varst búinn að þróa t.d. pakkann, framleiðsluaðferðir og annað slíkt til að koma þessu saman.“ Ef búið er að gera þetta nógu oft er kominn grundvöllur til að breyta hlutunum með miklum hraði.  

mRNA ýtir gömlu mmr bóluefnunum ekki út

Örn segir að þó lyfjafyrirtækin séu öll í samkeppni séu þeir sem hafi unnið við þróun þessarar tækni tiltölulega lítill heimur innan lyfjaþróunargeirans og fólkið hittist oft á ráðstefnum til að ræða um þróun tækninnar. Þegar faraldurinn braust út hafi allir fengið aðgang að genaröð veirunnar. mRNA-tæknin sé öflug en þrátt fyrir það sé ekki víst að hún eigi eftir að ýta út t.d. gömlu bóluefnunum sem börn eru bólusett með, þessum svokölluðu mmr-bóluefnum sem þróuð hafa verið gegn sjúkdómum eins og mislingum, rauðum hundum og hettusótt. Þau hafi verið notuð í áratugi og tugir milljóna verið bólusett með þeim sem segja megi að sé risastór tilraun á heimsvísu. Aukaverkanir af þessum bóluefnum hafi verið rannsakaðar í þaula.  

mRNA-bóluefnin eigi eftir að koma mjög sterk inn en ekkert þeirra eigi eftir að ryðja öllum bóluefnum frá heldur verði mögulega ákveðið samspil. 

mRNA-bóluefni gegn inflúensu 

„En ég gæti hins vegar séð það gerast með inflúensubóluefnin sem eru svona „universal“ og auðveldara að framleiða og auðveldara að ákveða samsetningu á vegna þess að bóluefnið fyrir inflúensu er búið til á hverju ári. Það er kannski auðveldara að ryðja því frá, því sem verið að er að gera nú, og breyta yfir í mRNA að einhverjum hluta.“  

Fjölmargar rannsóknir hafi nú verið settar af stað á mRNA-tækninni og verið sé að þróa bóluefni gegn ýmsum sjúkdómum. Örn segir að slíkar rannsóknir séu að fara í gang og nauðsynlegt að það sé gert í samstarfi við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina.

Bóluefnin virka á stökkbreytt afbrigði

Heilbrigðiseftirlitið í Bandaríkjunum, FDA hefur þegar gefið út leiðbeiningar til þeirra sem framleiða mRNA-bóluefni um rannsóknir á stökkbreytingum veirunnar þ.e.a.s. hvað þurfi að gera til að sýna fram á að bóluefnin virki gegn nýjum afbrigðum svo hægt sé að nota þau ef alvarlegt afbrigði verður til. „Sem betur fer virka mRNA bóluefnin sem eru til í dag, þessi tvö, þau virka gegn afbrigðunum. Þannig að það hefur ekki verið þörf á að breyta þessu þó að ég viti að Moderna er í rannsóknum á suðurameríska afbrigðinu af því að ennþá er mikið af sýkingum þar.“

Möguleikar mRNA háðir ímyndunarafli mannsins

Örn segir að Moderna sé nú að þróa mRNA-bóluefni við ýmsum sjúkdómum t.d. inflúensu, krabbameini, zika-veirunni o.fl. Tæknin eigi eftir að hafa gífurleg áhrif á ýmsa sjúkdóma. Hún eigi eftir að koma að miklu gagni í baráttunni við krabbamein. Bylting hafi orðið í þróun krabbameinslyfja og mRNA eigi eftir að gera enn betur, ekki bara sem bóluefni við krabbameini heldur líka sem sérvirkt lyf við ákveðnum tegundum krabbameins. Einnig væri hægt að nota það beinlínis sem mótefni sem væri sprautað beint í fólk. Ekki eins og nú er gert þegar efni er sprautað í fólk til að vekja um mótefnasvar heldur tilbúið mótefni með mRNA. „Þannig að þú getur bara svarað strax með bóluefnastungunni sem er byggð á mRNA. Það er öðru vísi útfærsla.“ 

„Eitt fyrsta verkefnið sem setti Moderna á kortið var verkefni með AstraZeneca í Svíþjóð þar sem var verið að setja ákveðin mRNA inn í hjartavöðva beint í uppskurði til að græða hjartavöðva sem hafði orðið fyrir skemmdum í hjartaáfalli. Allt þetta er til og er það sem kallað er „regenerative theraputics.“ Ég myndi segja að þetta séu bara dæmi um möguleikana en ég held að möguleikarnir séu bara háðir ímyndunaraflinu.“

Heimsfaraldurinn flýtti þróuninni

„Þetta hljómar eins og bylting í mín eyru? Ég gæti trúað því að það sé þarna ákveðin bylting“ 

Miklar framfarir hafa átt sér stað síðan heimsfaraldurinn brast á. Örn segir að hann hafi flýtt fyrir þróuninni. Mikil uppsveifla hafi verið í mRNA síðustu 10 ár. Moderna hafi ekki verið fyrsta fyrirtækið en hafi komið mjög sterkt inn og fjárfesti mikið í þeirri tækni sem þurfti til að búa til mRNA lyf og bóluefni. „Það er náttúrulega fyrsti áfanginn að komast upp þá brekku en þegar maður er kominn á þann stað þá er hægt að gera mjög margt með þessari tækni og ég held að kórónaveirufaraldurinn hafi bara flýtt fyrir öllu.“