Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Lögreglan á Austurlandi sker upp herör gegn hraðakstri

14.06.2021 - 10:04
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Á sumrin eykst umferð mjög og bensínfótur landans þyngist. Lögreglan á Austurlandi hefur ráðist í sérstakt átak gegn hraðakstri og með því að hafa lögreglubíla sýnilegri hefur tekist að lækka hraða og fækka alvarlegum slysum.

Stór hluti af starfi lögreglumanna felst í umferðareftirliti og á Egilsstöðum eru lögreglumenn að leggja í leiðangur. „Við ætlum að fara á hringveginn. Ætlum að fara aðeins upp í Jökuldal og jafnvel upp á Háreksstaðaleið, við sjáum hvernig tímanum líður,“ segir Snjólaug Eyrún Guðmundsdóttir, lögreglumaður á Egilsstöðum.

 „Við höfum sett okkur það markmið að vera með aukinn sýnileika lögreglunnar með það að markmiði að fækka alvarlegum slysum. Og að sjálfsögðu fylgir auknum sýnileika fleiri afskipti. Við erum farin að sjá árangur af því að alvarlegum slysum hefur fækkað núna síðustu tvö ár og við ætlum að halda áfram.

Sjáið þið hraðann eitthvað lækka?

Á ákveðnum köflum höfum við séð það lækka, já. Til dæmis eins og á Fagradal á milli Egilsstaða og Reyðarfjarðar. Þar er sýnileg lækkun hámarkshraða að meðaltali,“ segir Hjalti Bergmar Axelsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Austurlandi.

Sektir voru hækkaðar talsvert fyrir tveimur árum og það hefur áhrif. En við komumst samt ekki út úr bænum án þess að rekast á ökumann sem ók eins og hann væri utan bæjar. Þá er posinn tekinn upp og gefin sekt. „Þær eru mjög háar og í rauninni kippa í veskið eins og maður segir,“ segir Hjalti Bergmar.

Lögreglan skoðar eigin tölur og umferðargreina Vegagerðarinnar sem gefa til kynna hvar helst er ekið of hratt. Það kemur ekki á óvart að því lengra sem komið er frá lögreglustöðinni þeim mun hraðar ekur fólk. Í sumar ætlar lögreglan á Austurlandi að fara í átak í að mæla hraða sunnan Djúpavogs og einnig á leiðinni norður í land.  „Við höfum séð inni á umferðargreinunum og okkar tölum að Háreksstaðaleiðin, Fjöllin norður skora mjög hátt í því og þar er mjög algengt að mjög hátt hlutfall ökumanna og bifreiða sem þar fara um sé keyrt á 120 kílómetra hraða og yfir. Við viljum svo sannarlega ná því niður og þangað erum við að beina spjótum okkar.

En hvaða skýringar gefum fólk á hraðakstri sínum?

Þær eru nú alls konar. Það er nú oftast nær einhver gleymska, aðgæsluleysi. Ekki gert sér grein fyrir á hvaða hraða er verið að aka. Sumartíminn er hættulegri að okkur sýnist, út frá bara aukinni umferð. Umferðin eykst mikið á sumrin þegar ferðafólk er á ferðinni. Við viljum á þeim tíma auka sýnileika okkar með það að markmiði að fækka eða koma í veg fyrir alvarleg slys,“ segir Hjalti Bergmar Axelsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Austurlandi.

Horfa á frétt

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir