Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Læknalið Maradona svarar til saka í dag

Mynd með færslu
 Mynd: El Gráfico - Wikimedia
Einkalæknir Diego Maradona heitins og sex aðrir sem önnuðust hann seinustu dagana fyrir andlát hans verða yfirheyrðir af saksóknara í Argentínu í dag. Sjömenningarnir eru grunuð um manndráp af gáleysi og fyrir að hafa ekki annast knattspyrnugoðsögnina með fullnægjandi hætti og skilið hann eftir án umönnunar í lengri tíma.

Þetta hefur rannsókn sérfræðinga á andláti hans leitt í ljós og ákæra gefin út á hendur þeim þess efnis. Maradona lést í nóvember á seinasta ári, sextugur að aldri úr hjartaáfalli. Nokkrum vikum áður en hann lést fór hann í heilaaðgerð vegna blóðtappa. Tvö barna goðsagnarinnar fóru fram á rannsókn á vinnubrögðum heilaskurðlæknisins Leopoldo Luque. Þau kenna honum um að heilsufari Maradona hafi hrakað hrapalega eftir aðgerðina. 

Í áliti 20 sérfræðinga sem saksóknari í Argentínu óskaði eftir í seinasta mánuði kemur fram að umönnun hafi verið ábótavant og starfsfólkið hafi látið örlögin ráða því hvað yrði um Maradona. 
Yfirheyrslurnar fara fram á næstu dögum þar sem farið verður yfir aðkomu hvers og eins. Þær áttu að fara fram í seinasta mánuði en uppgangur faraldursins í Argentínu varð til þess að það frestaðist.

Að loknum yfirheyrslum er það svo í höndum dómara að ákveða hvort að ástæða sé til að leiða málið inn í dómsal. Sjömenningunum hefur verið bannað að fara úr landi þar til að ákvörðun um það verður tekin. Fari svo að þau verði sakfelld eiga þau yfir höfði sér frá átta upp í 25 ára fangelsi. 

Læknirinn segist hafa gert sitt besta. Hann hafi boðið Maradona ýmislegt. Hann hafi þegið sumt, en annað ekki. Hann lýsir yfir sakleysi sínu og segir að Maradona hafi glímt við þunglyndi seinustu ævidaga sína. Sóttkví og einangrun frá fólki vegna faraldursins hafi ekki farið vel í hann. 
Maradona er goðsögn, ekki síst í heimalandinu en hans verður minnst sem einst besta knattspyrnumanns allra tíma.

Eftir að ferlinum lauk lifði hann óheilbrigðum lífsstíl sem hafði áhrif á heilsufar hans. Hann glímdi bæði við flöskuna og var haldin kókaínfíkn. Seinustu æviár sín líffæri hans látið á sjá, bæði nýru, lifur og hjarta þoldu álagið orðið illa. 
Þegar hann lést var lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg í Argentínu.