Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Kvartað til Persónuverndar vegna rannsóknar á Samherja

14.06.2021 - 10:34
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Kvartað hefur verið til Persónuverndar vegna embættis héraðssaksóknara. Samkvæmt heimildum fréttastofu tengjast þær kvartanir meðal annars rannsókn embættisins á Samherjaskjölunum sem fyrst voru til umfjöllunar í fréttaskýringaþættinum Kveik.

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu RÚV að Persónuvernd upplýsi ekki um fólk sem til stofnunarinnar leita. „Hins vegar getur Persónuvernd upplýst að stofnunin er með til umfjöllunar kvartanir yfir vinnslu persónuupplýsinga hjá héraðssaksóknara.“ Helga staðfestir að þetta séu þrjár kvartanir.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu snúast þessar kvartanir meðal annars að samnýtingu á gögnum en bæði héraðssaksóknari og skattrannsóknarstjóri hafa haft Samherjaskjölin til rannsóknar.

Embætti héraðssaksóknara vildi ekki tjá sig um málið og lögmaður á vegum Samherja hefur ekki svarað fyrirspurnum fréttastofu.

Sex núverandi og fyrrverandi starfsmenn Samherja hafa haft réttarstöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara. Embættið hefur sagt að rannsóknin sé stór og að hún taki örugglega þó nokkurn tíma, meðal annars kalli hún á samstarf við erlendar löggæslustofnanir. 

Samherji hefur nokkrum sinnum leitað til dómstóla eftir að rannsókn héraðssaksóknara hófst, helst í tengslum við gögn frá endurskoðunarfyrirtækinu KPMG.

Það mál hafði nokkur eftirmál. Kvartað var til eftirlitsnefndar með störfum lögreglu vegna saksóknara í málinu og einnig til nefndar um dómarastörf vegna dómara hjá Héraðsdóm Reykjavíkur. Báðum kvörtunum var vísað frá.