Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Hrollkalt fram í júlí og norðlægar áttir ríkjandi

14.06.2021 - 18:19
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RUV
Búast má við ríkjandi norðlægum áttum og kulda fram í júlí, þótt hugsanlega sé von á einstaka góðum dögum inni á milli. Þetta sagði Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur í viðtali í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.

„Þetta kalda loft leikur um okkur næstu þrjá til fjóra daga og hitinn verður 3-5 stigum undir meðallagi árstímans fram að 17. júní. Þann daginn er spáð sól en hiti yfir miðjan daginn verður ekki nema 7-8 stig, þannig að það er eins gott að klæða sig í húfu og vettlinga, allavega börnin,“ segir hann.

Áfram verði svalt yfir helgina og úrkoma á Suður- og Suðausturlandi. „En síðan er núna verið að spá ágætlega vænum dögum eftir næstu helgi, 22. og 23. júní, með sunnan- og suðvestanátt, það eru svona 50 prósent líkur á að þá hlýni. En hins vegar eru ágæt líkindi til að það kólni síðan aftur, að kalda loftið nái sér á strik,“ segir Einar. 

Til þess að skoða veðrið svo langt fram í tímann séu 50 eins langtímaspár reiknaðar, með örlitlum breytingum í upphafspunkti, til þess að fá líkindadreifingu í veðri. Stundum sé erfitt að segja til um veðrið en síðasta spá hafi verið afgerandi:

„Þessi síðasta spá sem var reiknuð fyrir helgi er nokkuð eindregið með ríkjandi norðlægar áttir og kulda fram í júlí. En það þýðir ekki að það geti ekki komið góðir daga inni á milli,“ segir Einar. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV