Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Erlendum ríkisborgurum fjölgar lítillega

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Hjalti Haraldsson - RÚV
Alls voru 51.623 erlendir ríkisborgarar skráðir með búsetu hér á landi þann 1. júní 2021 og fjölgaði þeim um 245 frá 1. desember 2020, að því er kemur fram á vef Þjóðskrár.

Á sama tíma fjölgaði íslenskum ríkisborgurum sem eru með skráða búsetu hér á landi um 1.814 einstaklinga.

Pólverjum og Tékkum fækkar

Pólskum ríkisborgurum fækkaði á ofangreindu tímabili um 309 einstaklinga og litháískum ríkisborgurum fækkaði um 45 manns. Hlutfallslega fækkaði erlendum ríkisborgurum frá Tékklandi mest, eða um 96 einstaklinga, úr 804 í 708 eða sem nemur fækkun upp á 11,9%.

Fjölgun frá ýmsum heimshornum

Hins vegar hefur fjölgað nokkuð í röðum rúmenskra, franskra og bandarískra ríkisborgara á umræddu tímabili. Rúmenum fjölgaði um 96 einstaklinga, Frökkum um 72 og Bandaríkjamönnum um 74. Þá fjölgaði Þjóðverjum um 66 einstaklinga og Palestínumönnum um 47 manns.

Þessar tölur eru byggðar á skráningu Þjóðskrár á fjölda einstaklinga sem eru skráðir með búsetu hér á landi eftir ríkisfangi.

 

Jón Agnar Ólason