Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Vilja aðra óháða rannsókn á uppruna veirunnar

13.06.2021 - 14:49
epa09267288 Britain's Prime Minister Boris Johnson speaks at a press conference on the final day of the G7 Summit in Carbis Bay, Cornwall, Britain, 13 June 2021. Britain held a G7 summit in Cornwall from 11 to 13 June 2021.  EPA-EFE/NEIL HALL / POOL
 Mynd: EPA-EFE - EPA POOL
Leiðtogar G7 ríkjanna vilja að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin fari fyrir annarri rannsókn á uppruna veirunnar sem veldur Covid-19. Þetta kom fram á blaðamannafundi leiðtoga G7 ríkjanna nú á þriðja tímanum.

Bandaríkjastjórn hefur hvatt til þess að það verði rannsakað nánar hvort veiran hafi átt upptök sín á rannsóknarstofu í Wuhan í Kína. Stjórnvöld í Bretlandi, Ástralíu og Evrópusambandinu hafa tekið undir og vilja óháða rannsókn. Rannsóknarnefnd á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar fór til Wuhan í febrúar en fékk ekki aðgang að öllum þeim gögnum sem óskað var eftir. Undanfarnar vikur hefur aukist þrýstingur á Kínverja að leyfa aðra og ítarlegri rannsókn en komið hefur í ljós að þrír vísindamenn í Wuhan veiktust hastarlega í nóvember 2019 og þurftu að leggjast inn á sjúkrahús. 

Leiðtogarnir hétu því einnig að hraða vinnu við að koma bóluefnum við Covid-19 til fátækari ríkja heims. Þar er bólusetning mun styttra á veg komin en til dæmis í Evrópu og Bandaríkjunum. Leiðtogarnir hétu því að byrja strax að flytja um einn milljarð skammta til þessara ríkja en það er fjarri þeirri tölu sem talið er að þurfi til að hægt sé að fullyrða að faraldrinum sé lokið. Í þeim efnum hefur verið talað um að ellefu milljarða skammta þurfi til að ná hjarðónæmi um allan heim.