Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segjast ekki ætla að verða FOX Bretlands

13.06.2021 - 04:56
Mynd með færslu
 Mynd: skjáskot - RÚV
Forsvarsmenn GB News í Bretlandi sem fer í loftið í dag gefa lítið fyrir þær gagnrýnisraddir sem segja stöðina verða í anda FOX News vestan hafs. Blaðamönnum stöðvarinnar verði veitt frelsi til að segja það sem þeim finnst, skemmta sér og sýna hugrekki í þeim málum sem skiptir Breta máli.

GB News er fyrsta fréttastöðin sem hefur útsendingar í Bretlandi í meira en tvo áratugi. Þó svo að útsendingar stöðvarinnar séu ekki hafnar hafa forsvarsmenn hennar þegar þurft að grípa til varna gegn þeim sem líkja henni saman við FOX News stöðina í Bandaríkjunum. 

„Uppsetninginn hjá okkur er svipuð og hjá Fox News, en efnislega erum við gjörólík þeim. Þau eru að reka harðkjarna hægrisinnaða upplýsingaóreiðu, falsfréttir og samsæriskenningar“ sagði Andrew Neil , einn af fréttamönnum GB News. 

Á stöðinni verða 140 starfsmenn, þar af 120 blaðamenn og segir McAndrews að þar á meðal séu reynslumiklir og virtir blaðamenn sem hafa starfað á stærstu fjölmiðlum Bretlands, eins og BBC, Sunday Times og Sky. 

Markmið miðilsins er að ná til breiðari hóps breta og koma skoðunum þeirra á framfæri og er sögð hliðholl Brexit sinnum. Sérfræðingar hafa sagt að stöðin verði hægri sinnaðri en breska ríkisútvarpið, BBC. Jane Martinson, prófessor í blaðamennsku við Lundúnarháskóla segir of snemmt að segja til um hvernig stöðin verður.

„Sumir segja að þetta verði eins og Fox, en það þau eru ekki komin í loftið, svo við skulum bíða og sjá,“ sagði Jane Martinsson. 

Des Freedman, sem einnig er prófessor í blaðamennsku við Goldsmiths háskólann í Lundúnum segist setja spurningamerki við fjármögnun stöðvarinnar, en í desember fjárfesti Discovery, sem er Bandarísk stöð, í GB News fyrir 60 milljónir punda, eða rúmlega 10 milljarða króna.