Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ekkert er útilokað í Leikskólalandi

Mynd: Anton Brink / RÚV

Ekkert er útilokað í Leikskólalandi

13.06.2021 - 10:54

Höfundar

„Til hvers er djammið? Af lýsingum lögreglunnar að dæma gæti maður haldið að þetta sé fyrst og fremst vettvangur fyrir fólk til þess að láta limlesta sig og misnota,“ segir Halldór Armand Ásgeirsson rithöfundur í umfjöllun sinni um skemmtanalífið og mögulegar hættur þeirra.

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

Nú hefur það gerst sem margir höfðu beðið eftir. Lögreglan vill stytta opnunartíma skemmtistaða á Íslandi varanlega vegna þess að hún segir að dregið hafi úr ofbeldi og kynferðisbrotum inni á skemmtistöðum í covid-faraldrinum. Þessi niðurstaða var algjörlega fyrirframgefin og augljós. Það er erfitt að drekka sig fullan og berja annan mann til óbóta inni á bar þegar allir barir eru læstir og mannlausir. Þetta sér hver einasta manneskja en ef við tökum þessa harðstjórnarríkis-lógík einu skrefi lengra væri auðvitað langbest að djammið væri bannað vegna þess að þá myndi ekkert slæmt gerast á djamminu. 

Já, við vorum sum okkar vissulega búin undir þessa hugmynd enda er það að vissu leyti Íslandssagan í hnotskurn að stjórnvöld reyni að koma í veg fyrir að almenningur skemmti sér. Fyrstu heimildirnar um tilraunir yfirvalda hér á landi til að banna dans eru frá 12. öld. Það var Jón Ögmundsson biskup sem reið á vaðið og reyndi að útskýra fyrir fólki hvað það er hættulegt að reyna að hafa gaman eða láta sér líða vel. Í hinni frægu Tilskipun um húsagann á Íslandi frá 1746 komu jafnframt skýrt fram afdráttarlaus viðhorf yfirvalda til gleðskapar. Að gera heiðarlega tilraun til þess að skemmta sér með öðru fólki var kallað synd og við því lágu harðar refsingar. 

Árið 1757 skrifaði síðan prófastur á Staðarbakka heila bók til þess að mótmæla öllum leikjum og skemmtunum með þeim kunnuglegu rökum að þeir væru „engum gagnlegir og beinlínis skaðlegir“. Titill bókarinnar var jafnframt tæpitungulaus enda var þetta áður en upplýsingafulltrúar voru fundnir upp: „Mandúkus eða andmæli á móti heiðingjaleikum þeim sem nú tíðkast, vikivökum og dansi, spilum og tafli, rímum og veraldlegum ljóðmælum, lestri léttúðugra bóka og öðrum gagnslausum athöfnum, studd við söguleg guðfræðileg, biblíuleg, heimspekileg og lögleg rök.“ Þetta er 18. aldar útgáfan af sömu röddum og við heyrum í dag. Að vernda fólk frá djamminu er 21. aldar útgáfan af því að banna dans.

Fjórtán kexpakka bjórglas

Í raun er allt til reiðu fyrir að banna djammið hér á landi. Eina munaðarvaran sem er tiltölulega ódýr á Íslandi er nammi, reyndar er það alveg hreint furðulega ódýrt. Einn bjór á bar í Reykjavík kostar það sama og fjórtán kexpakkar í Hagkaup. Sama gildir um Parmesan-ost. Þetta eru 12-14 kexpakkar. Á Íslandi er það alveg hreint meiriháttar fjárhagsleg ákvörðun að drekka áfengi eða ekki. Íslenskur hófdrykkjumaður getur eflaust farið langt með að verðtryggja sig gegn hækkandi fasteignaverði með því einu að halda sig heima á kvöldin og spæna í sig fjórtán kexpakka uppi í rúmi í stað þess að stunda þá „gagnslausu og beinlínis skaðlegu iðju“ að reyna að hafa gaman, fá sér einn bjór með vinum sínum á bar og jafnvel – guð hjálpi okkur – stíga dans.

Það sem vantar í draumkennda óra lögreglunnar um samfélag þar sem enginn er á stjái eftir miðnætti er lögmál ófyrirsjáanlegra afleiðinga. Ef þú vilt koma algjörlega í veg fyrir átök verðurðu að banna fólki að vera inni í sama herbergi. Tilkynningum um heimilisofbeldi fjölgaði talsvert í covid og þunglyndi, einmanaleiki og geðræn vandamál um víða veröld jukust til muna. Það þarf svo sem enga sérstaka snilligáfu til þess að geta sér til um af hverju. Það vantar líka allt innsæi í það af hverju fólk vill yfirhöfuð skemmta sér, af hverju það vill sletta úr klaufunum og hefur innbyggða þörf fyrir að deyfa hugsun sína öðru hverju og jafnvel gera eitthvað sem það myndi ekki gera í hádeginu á þriðjudegi, eins og til dæmis að drekka einum bjór of mikið, öskursyngja Nínu úti á götu og svo framvegis. 

Til hvers er djammið? Af lýsingum lögreglunnar að dæma gæti maður haldið að þetta sé fyrst og fremst vettvangur fyrir fólk til þess að láta limlesta sig og misnota. En djammið er fyrst og fremst leið samfélagsins til að losa um innri spennu, þar léttir fólk á þrýstingi, hristir úr sér kvíða og stress og hleypir um leið smá spennu og leyndardómi, einhverju óvæntu, inn í líf sitt.

Lífið er best þegar ekkert getur gerst

Það vita allir að það eru tölfræðilega meiri líkur á að lenda í einhverju slæmu á djamminu en inni á Borgarbókasafninu. En það vill líka enginn búa í Leikskólalandi þar sem engin hætta eða háski er til vegna þess að á svo óspennandi stað getur ekkert óvænt gerst. Á Íslandi er fullorðið fólk vant því að yfirvöld tali eiginlega alltaf við það eins og börn og gangi út frá því að það skilji ekki, hvað þá sjái gegnum, einföldustu hluti. Djammið er að því leyti eitt síðasta vígið. Vinsamlegast látið það í friði.

En ef hugmyndin er að koma í veg fyrir viðburði þar sem hætta þykir á ofbeldi og kynferðisbrotum þá er næsta skref væntanlega að stoppa útihátíðir, vinnustaðapartý, menntaskólaböll og svo framvegis. Ef stjórnvöld nota plágu til að skerða réttindi fólks og frelsi þess til að lifa lífinu eins og það sjálft vill en dregur þessar skerðingar síðan ekki til baka þá glata þau öllum trúverðugleika. Ekki síst vegna þess að það var það sem allir sem eitthvað vita um mannkynssöguna voru og eru búnir undir; að reynt verði að gera undantekningarástandið varanlegt.

Hættuiðnaðinum vex sífellt ásmegin og ef maður gerir sjálfum sér þann óleik að fylgjast reglulega með fréttum þá heldur maður óhjákvæmilega að heimurinn sé eitt stórt tilræði við öryggi manns og vilji mann feigan. Það skýrist bæði af því að það geta auðvitað falist ríkir hagsmunir í því að hræða líftóruna úr fólki, fjölmiðlar hafa hvata til þess að taka virkan þátt í að skapa skelfingu, eins og covid sýndi svo vel, vegna þess að hrætt fólk klikkar miklu meira á fréttir, og svo hafa stjórnmálamenn í auknum mæli tekið sér það hlutverk að tala upp alls konar ógnir og hættur – vondir útlendingar er auðvitað klassíkin í dag – sem þeir geta síðan verndað kjósendur sína fyrir vegna þess að þeir hafa enga stefnu, heimspeki eða framtíðarsýn upp á að bjóða sem laðar fólk að kjörkassanum. Þess vegna er sífellt er verið að vara mann við einhverju eða taka viðtöl við fólk sem hefur ofsalegar áhyggjur af einhverju. Oftar en ekki gegnir þar lykilhlutverki frasinn um að „ekki sé hægt að útiloka“ einhverja hættu.

Litakóðunarkerfi mannanafnanefndar

Það sem einu sinni var kallað rok eða vindur heitir núna gul viðvörun og er þannig orðið að fréttaefni sem hægt er að fjalla um með dramatísku litakóðunarkerfi. Umfangsmikil margra mánaða vinna var lögð í að setja á laggirnar sambærilegt litakerfi út af covid. Þegar það var tekið í gagnið var allt landið síðan alltaf rautt. Núna er allt landið gult og þú átt samkvæmt opinberum fyrirmælum að „vera á varðbergi“ hvort sem þú ert í Ásmundarsal, ein og bólusett uppi á Vatnajökli eða í göngutúr um Melrakkasléttu. Með þessu er ég ekki að tala gegn sóttvörnum en það sér hver maður að þetta kerfi gegnir fyrst og fremst því hlutverki að elta skottið á sinni eigin innri eilífðarlógík um að ekkert sé hægt að útiloka og viðhalda þannig sjálfu sér. Það er til dæmis ekki möguleiki innan litakóðunarkerfisins að einn daginn komi upp ástand þar sem það sjálft er óþarft.

Lögreglan hélt því fram árið 2012 að það væru „meiri líkur en minni“ á að hér á landi yrði framið hryðjuverk á borð við það sem gerðist í Útey í Noregi. Þetta átti að gerast á næstu 5-10 árum. Þessi yfirgengilegi spádómur átti án nokkurs vafa rót sína í þessari sömu hugsun um að ekki sé hægt útiloka neitt. Eins var árið 2017 óhikað talað um að hryðjuverkaógnin væri að „færast nær“ Íslandi þegar framin voru illvirki í Svíþjóð og Bretlandi, svona eins og hryðjuverkaógnin sé staðbundið fyrirbæri sem færir sig lógískt eins og fuglager milli staða eftir árstíðum. Það hefur hins vegar aldrei verið sögð frétt um það að hryðjuverkaógnin sé að færast fjær Íslandi. Hættan bara færist nær og verður meiri og meiri. Á sama tíma heldur Ísland áfram að vera, og það með talsverðum yfirburðum, öruggasti staðurinn á plánetunni Jörð að mati Global Peace Index. 

Það er hættustig vegna eldgoss á Reykjanesi, það er hætta af gosmengun, það er hættulegt svifryk þarna úti og lífshættulegir flugeldar, og það er líka óvissu- og hættustig vegna gróðurelda vítt og breitt um landið. Fyrir ekki svo löngu var ekki hægt að útiloka annan stóran skjálfta. Þá skulum við ekki gleyma hættunni sem stafar af svokallaðri upplýsingaóreiðu og þessu nýja hugtaki í þjóðarörygismálum sem kallað er fjölþáttaógnir. Allt er þetta eitthvað sem kallar augljóslega á mótvægisaðgerðir með tilheyrandi litakóðunarkerfum fyrir börn. 

Hlýtur svo ekki að koma að því að einhver stígi fram með áhyggjur af því að Rússar hafi afskipti af kosningunum til Alþingis í haust? Hver ætlar að ríða á vaðið?

Sjálfur læt ég mig dreyma um daginn þegar mannanafnanefnd tekur upp litakóðunarkerfi og það verður hægt að segja dramatískar fréttir af því að gul viðvörun hafi verið gefin út á nöfn eins og Rasmus og Arnljótur vegna þess að ekki sé hægt að útiloka að gert verði grín að þeim. Hættan færist nær og nær. Verum á varbergi, alltaf, alls staðar, og hniprum okkur saman undir rúmi í kvöld vegna þess að enginn getur sagt til um það hvað ekki verður hægt að útiloka næst.

Tengdar fréttir

Tónlist

Fram á nótt: Tónlistin og djammréttindi

Pistlar

Veröld sem var ekki

Pistlar

Um einkahúmor og vináttu

Pistlar

Við erum ekki öll almannavarnir