Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Samband Rússlands og Bandaríkjanna með versta móti

12.06.2021 - 06:34
Russian President Vladimir Putin speaks at a meeting of the Valdai International Discussion Club in Sochi, Russia, on Thursday, Oct. 18, 2018. Russian President Vladimir Putin has called the deadly shooting and bomb attack by a teenager in Crimea a &quot
 Mynd: AP
Rússlandsforseti segir samband Rússlands og Bandaríkjanna ekki hafa verið verra en nú um árabil. Hann fer á fund Bandaríkjaforseta í Genf í Sviss í næstu viku.

 

„Samband ríkjanna hefur versnað á undanförnum árum og er nú verra en það hefur verið lengi," sagði Pútín í viðtali sem sjónvarpað var á bandarísku fréttastöðinni NBC í gærkvöld. Hann bindur þó vonir við að hann geti unnið með Joe Biden, Bandaríkjaforseta, sem sé ekki jafn ófyrirsjáanlegur og hvatvís og forveri hans í Hvíta húsinu.

Trump einstakur og hæfileikaríkur maður

Í viðtalinu hrósaði Pútín  Donald Trump sem hann sagði einstakan og hæfileikaríkan mann, „annars hefði hann ekki orðið forseti Bandaríkjanna." Trump væri litríkur einstaklingur, hvor sem þér líkar við hann eða ekki. Og hann kemur ekki úr bandaríska kerfinu, hann hafði ekki tekið þátt í þungavigtarpólitík áður, og sumum líkar það, öðrum líkar það ekki, en það er staðreynd."

Biden atvinnupólitíkus sem vonandi lætur ekki stjórnast af skyndihugdettum

Biden er hins vegar gjörólíkur Trump, segir Pútín, því hann er atvinnupólitíkus sem hafi verið stjórnmálamaður nánast öll sín fullorðinsár. Það hafi sína kosti og ókosti, segir Rússlandsforseti, en það sé þó einlæg von hans að Biden grípi ekki til neinna aðgerða „útfrá skyndihugdettum."

Mörg og alvarleg ágreiningsefni

Biden hefur sagst ætla að tala tæpitungulaust við Pútín á leiðtogafundinum á miðvikudag. „Við sækjumst ekki eftir átökum við Rússland," sagði Biden skömmu eftir að hann lenti í Bretlandi í fyrradag, þar sem hann sækir ráðstefnu G7-ríkjanna.

„Við viljum stöðugt og fyrirsjáanlegt samband [...] en ég hef talað skýrt: Bandaríkin munu bregðast við með kröftugum og áhrifamiklum hætti, ef rússnesk stjórnvöld eiga þátt í skaðlegum aðgerðum."

Ágreiningsefni stjórnvalda í Washington og Moskvu eru mörg og alvarleg. Nægir þar að nefna Úkraínudeiluna, ásakanir Bandaríkjamanna um aðild rússnesku leyniþjónustunnar að tölvuárásum á bandarísk fyrirtæki og stofnanir og afskipti hennar af kosningum í Bandaríkjunum, og fangelsun Alexeis Navalnys, þekktasta stjórnarandstæðings Rússlands. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV