Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Mikilvægustu kosningar á lýðveldistímanum“

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Vorfundur miðstjórnar Framsóknarflokksins stendur yfir á Hótel Hilton Nordica í dag. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, er ánægður með afrakstur kjörtímabilsins. Nefnir hann þá sérstaklega tvö mál; samgöngusáttmálann um uppbyggingu samgönguinnviða og umbætur á samgöngum í Teigsskógi á Vestfjörðum. 

Sigurður Ingi segir jafnframt að viðtökur meðal almennings hafi verið góðar við loftbrúnni, afsláttar af flugfargjöldum til íbúa á landsbyggðinni sem búa fjærst höfuðborginni. Telur hann það vera vegna þess að Íslendingar hafi ferðast innanlands í auknum mæli í faraldrinum. Hann er einnig ánægður með þær kerfis- og réttindabætur sem hafa orðið á tímabilinu, meðal annars á skipulagi verknáms og rétt þeirra til háskólanáms. 

Styrkur að hafa breiða samvinnustjórn þriggja flokka 

„Það er mín skoðun að það hafi verið styrkur fyrir þjóðina að ríkisstjórnin sem hefur leitt þjóðina í gegnum heimsfaraldurinn sé breið samvinnustjórn þriggja flokka sem hver og einn endurspeglar ólíka þætti í litrófi stjórnmálanna, vinstri, hægri og miðju. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar endurspegla þessa litríku samsetningu, “ segir Sigurður Ingi í ræðu sinni í dag. 

Mikilvægustu kosningar á lýðveldistímanum

Hann segir komandi kosningar verða þær mikilvægustu á lýðveldistímanum þar sem örlagaríkar ákvarðanir og enduruppbygging íslensks samfélags verði helsta verkefni komandi ríkisstjórnar.