Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fyrsti sigur Stjörnunnar og Víkingur á toppnum

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Fyrsti sigur Stjörnunnar og Víkingur á toppnum

12.06.2021 - 19:06
Stjarnan tók á móti toppliði Vals í úrvalsdeild karla í fótbolta nú síðdegis og FH-ingar sóttu Víkinga heim.

Stjarnan hefur verið í basli í sumar, sat í næstneðsta sæti fyrir leikinn og lenti undir þegar Rasmus Christiansen skoraði fyrir Val á 27. mínútu. Staðan var 0-1 í leikhléi. 

Hilmar Árni Halldórsson jafnaði metin á upphafssekúndum síðari hálfleiks og örfáum mínútum síðar kom Heiðar Ægisson Stjörnumönnum yfir. 

Meira var ekki skorað í leiknum, lokatölur 2-1 og fyrsti sigur Stjörnunnar í sumar kominn og það á móti Íslandsmeisturum Vals sem voru á toppnum. 

Á sama tíma mættust Víkingur og FH. Nikolaj Hansen náði forystunni fyrir heimamenn í Víkinni á 28. mínútu og þeir leiddu í leikhléi. 

FH-ingar komust í fá færi í leiknum en Hansen skoraði aftur á móti sitt annað mark í leiknum á 85. mínútu og er orðinn markahæsti leikmaður deildarinnar. 

Víkingar unnu 2-0 og eru einu taplausa liðið það sem af er sumri, með átján stig í átta leikjum, stigi meira en Valur. FH situr í sjötta sæti.