Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fumlaus og kraftmikil frásögn af brotinni fjölskyldu

Mynd: Nýjar raddir / Forlagið

Fumlaus og kraftmikil frásögn af brotinni fjölskyldu

12.06.2021 - 10:00

Höfundar

„Það var virkilega upplífgandi að lesa svona kraftmikinn texta og það þótt viðfangsefnið í línunum væri allt annað en hressandi,“ segir Gauti Kristmannsson, gagnrýnandi, um skáldsöguna Að telja upp í milljón eftir Önnu Hafþórsdóttur.

Gauti Kristmannsson skrifar:

Fræg upphafsorð Leos Tolstojs í Önnu Kareninu um að allar hamingjusamar fjölskyldur líkist hver annarri og að allar óhamingjusamar fjölskyldur séu það á sinn hátt gæti verið leiðarhnoða þessarar sögu Önnu Hafþórsdóttur sem nýlega var gefin út eftir samkeppni Forlagsins Nýjar raddir, með það fyrir augum að koma ungum og nýjum höfundum á framfæri. Þessi frásögn er sögð frá sjónarhóli ungrar konu úr vægast sagt brotinni fjölskyldu, þessum stað þar sem börnin ættu að eiga athvarf og öryggi, en stundum verður eitthvað annað úr því, og þótt það sé oft býsna ámóta þar sem áfengi, fíkniefni og ofbeldi spilla öllu, þá er því ekki að heilsa í þessu tilfelli. Þetta er yfirgefningarsaga ef svo má að orði komast, hún fjallar um manneskju sem ástvinir yfirgefa og hún yfirgefur þá líka. Ofmælt er að segja að þetta sé einhver bókmenntagrein, en þetta er þema í ýmsum sögum, Auður Ava Ólafsdóttir hefur til dæmis skrifað sögur þar sem þetta er viðfangsefni.

Sagan er sögð á tveimur sviðum, í fyrstu persónu nútíðar þar sem kærasti sögukonunnar, Rakelar, er að yfirgefa hana af ástæðum sem við fáum ekki að vita fyrr en nokkuð er liðið á söguna. Hitt sögusviðið, í  fyrstu persónu þátíðar, er æska og unglingsár konunnar, sem varð fyrir því að faðir hennar yfirgaf fjölskylduna án nokkurra skýringa, að minnsta kosti fá börnin Rakel og Robbi engar. Viðbrögð móður þeirra eru afar sérkennileg svo ekki sé meira sagt og fer hún að telja upphátt upp í milljón og er ekki til viðtals við börnin meðan á því stendur. Þetta er því saga um samskiptaleysi í brotinni fjölskyldu og gengur það sem rauður þráður í gegnum söguna og persónuleika Rakelar en varnarviðbrögð hennar valda því að hún lokar á samskipti við marga og heldur reynslu sinni frá uppvaxtarárum sínum fyrir sig, kærastinn veit til að mynda ekkert um hana og á þess vegna erfitt með að skilja konuna sem hann elskar mjög en hann fær ekki aðgang að hennar erfiðu reynslu.

Meðferðin á börnunum í sögunni undirstrikar líka annað umhugsunarefni hennar, barneignir, þrána eftir barni og andstæðu hennar. Rakel heitir auðvitað ekki þessu nafni að ástæðulausu, það er vísun til samnefndrar konu í Gamla testamentinu, eiginkonu Jakobs í fyrstu Mósebók. Munurinn er kannski sá að Rakel Biblíunnar er óbyrja án þess að vilja það, en Rakel í þessari bók vill ekki eiga börn, eðlilega, gæti manni dottið í hug, þegar við kynnumst fjölskyldu hennar nánar í gegnum söguna. Sögukonan snertir á hinni mótsagnakenndu þrá eftir börnum og frelsisins að vera án þeirra í litlu samtali við gamla vinkonu sem hún hefur ekki séð lengi, vinkonu sem hún yfirgaf sjálf að vissu leyti. Vinkonan á tvö börn og hún hittir hana á kaffihúsi fyrir tilviljun með annað þeirra. Hún kvartar svolítið yfir erfiðinu og segir að þetta sé „samt rosalega skemmtilegt“. Sögukonan svarar: „Já, ég skil,“ sagði ég en auðvitað skildi ég ekki. Hún brosti kurteislega í gegnum vegginn, listilega saumaðan samskiptavegg sem stendur á milli kvenna með og án barna.“ Samskipti án samskipta.

Spurt er líka stórra spurninga um hlutverk foreldra og tekst sérlega vel hjá höfundi að tjá sjónarhorn barnanna í þeim tilgangi. Foreldrarnir eru bæði tvö alvarlega brostnir einstaklingar, móðirin er greinilega haldin einhverri þráhyggju og þjáist af geðsveiflum sem börnin skilja ekki og það er vel gert að halda rökréttum skýringum frá okkur lesendum, við þurfum að skilja þetta út frá börnunum. Faðirinn er líka greinilega samskiptaheftur eða mjög sjálfhverfur, en við vitum enn minna um hann þar sem hann leggur niður rófuna og fer án skýringa og kveður ekki einu sinni börnin sín. Hann hefur heldur ekki samband við þau eftir það. Þetta eru hrikalegar aðstæður fyrir börn að alast upp við, svo ekki meira sé sagt, en það eru líka smáatriði í samskiptum innan fjölskyldunnar sem eiga við allar fjölskyldur og fullorðið fólk gleymir oft upplifun barna sinna í amstri dagsins og hrekkur svo við þegar fullorðnuð börnin spyrja um einhver augnablik úr fortíðinni sem það sjálft hefur gleymt en börnin hafa geymt djúpt í sálarkirnu sinni.

Fjölskyldur, allar með tölu, eru líka uppspretta sagna, oft eru sagðar smellnar sögur á góðum stundum og það aftur og aftur og kannski er þetta það sem Tolstoj átti við, góðu sögurnar eru kannski svipaðar, en þær sáru mismunandi, ef þær eru þá sagðar yfirleitt. Höfundur þessarar sögu blandar þessu saman á merkilegan hátt með fjölskyldusögunni af langömmunni Lillu, sem fór í leikhús og lifði sig svo inn í leikritið að hún fór að hrópa á leikarana á sviðinu, klassísk fjölskyldusaga sem móðir sögukonunnar segir og sú síðarnefnda fer að hugsa um hvaða skemmtisögur hún gæti sagt um móður sína. „Einu sinni var eins og hún læsi hugsanir mínar og hún bætti við: „Sögur verða skemmtilegar þegar tíminn hefur leyft þeim að marínerast. Fortíðin er rómantísk, framtíðin er spennandi en nútíðin er leiðinleg.“ Samt er bakgrunnur þessarar skondnu fjölskyldusögu sú staðreynd að langamman Lilla stytti sér aldur.

Anna Hafþórsdóttir hefur gott vald á máli og stíl og var ánægjulegt að sjá hvernig hún vinnur með formið í tímaflakkinu milli sögusviða og fyllir upp í upplýsingagötin fyrir lesendur í réttum skömmtum. Hún nær líka góðu flugi í lok sjöunda kaflans þar sem sögukonan ítrekar, nánast á þráhyggjukenndan hátt, allt sem hún gerði rangt í sambandi sínu og samskiptum við kærastann sinn. Þar sjáum við retoríska klifun sem virkar vel og við lesendur fáum að sjá inn í kviku konunnar ungu sem hefur verið yfirgefin og kennir sjálfri sér um allt. Það var virkilega upplífgandi að lesa svona kraftmikinn texta og það þótt viðfangsefnið í línunum væri allt annað en hressandi. En þetta var fumlaust og fór beint að kjarna þessarar sögu sem er á sinn hátt sönnun þess að það var eitthvað til í þessu hjá Tolstoj forðum daga. Við fáum að njóta þess í prýðilegri frásögn um snúnasta fyrirbærið í lífi hverrar manneskju, fjölskylduna.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Nýr höfundur snýr lipurlega upp á karlmennskuna

Menningarefni

Sögur verða til þegar eitthvað vantar upp á

Sjónvarp

Erfiðara að segja nei á tökustað