Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Felldu tillögu um að afgreiða stjórnarskrárfrumvarp

12.06.2021 - 11:28
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis felldi í morgun tillögu um að afgreiða stjórnarskrárfrumvarp Katrínar Jakobsdóttur óbreytt úr nefndinni.

Stjórnarskrárfrumvarp Katrínar Jakobsdóttur hefur verið til umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í rúma fjóra mánuði.

Ekki náðist sátt um sameiginlegt stjórnarskrárfrumvarp allra flokka og því ákvað Katrín að leggja málið fram sem þingmannamál. 

Málið hefur verið umdeilt frá upphafi og ekki er gert ráð fyrir afgreiðslu frumvarpsins samkvæmt samkomulagi forystumanna þingflokka um þinglok.

Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata og formaður nefndarinnar lagði fram þá tillögu á fundi nefndarinnar í morgun að málið yrði afgreitt óbreytt úr nefndinni en sú tillaga var felld með atkvæðum þingmanna Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Framsóknarflokks.

Jón Þór segir að niðurstaðan hafi ekki komið á óvart en hins vegar taldi hann rétt að láta reyna á málið.