Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Engin smit greindust hér á landi í gær

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Ekkert kórónuveirusmit greindist hér á landi í gær, samkvæmt bráðabirgðatölum frá Almannavörnum, hvorki innanlands né á landamærunum. Slakað verður á samkomutakmörkunum á þriðjudaginn en þá mega 300 koma saman í stað 150 eins og nú er. Grímuskylda verður áfram t.d. í leikhúsum og á íþróttaviðburðum og veitingastaðir mega hafa opið til miðnættis.

Hátt í 43 þúsund manns voru bólusett hér á landi í þessari viku og nú hafa um 215 þúsund fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni. Tæplega 129 þúsund eru fullbólusett. Áætlað er að þann 25. júní hafi allir í skilgreindum bólusetningarhópi fengið boð um bólusetningu. Bólusetning á höfuðborgarsvæðinu heldur áfram á mánudag þegar aldurshópar verða dregnir út af handahófi og bólusettir með bóluefni Janssen. Á þriðjudag verður svo bólusett með bóluefni Pfizer og BioNTech og á miðvikudag með bóluefni Moderna. Báða dagana fær fjöldi fólks seinni bólusetningu auk þess sem áfram verður haldið með handahófs-bólusetningu.