Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Blikar náðu þriðja sigrinum í röð

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Blikar náðu þriðja sigrinum í röð

12.06.2021 - 16:29
Breiðablik vann Fylki 2-0 á heimavelli í fyrsta leik dagsins af þremur í úrvalsdeild karla í fótbolta. Eftir markalausan fyrri hálfleik komu Blikar af krafti inn í þann síðari.

Kristinn Steindórsson átti stungusendingu inn fyrir vörn Fylkismanna strax í upphafi síðari hálfleiks og Árni Vilhjálmsson kom Breiðabliki yfir með sínu þriðja marki í deildinni í sumar. 

Á 54. mínútu tvöfaldi Viktor Karl Einarsson forystu Blika þegar hann þrumaði boltanum upp í þaknetið. 

Lokatölur urðu 2-0 og Breiðablik fer með sigrinum upp í fjórða sæti deildarinnar með þrettán stig eftir sjö leiki. KA situr í þriðja sæti með jafnmörg stig en á leik til góða. 

Fylkismenn sitja áfram í áttunda sæti með sjö stig eftir átta leiki. 

Tveir leikir í deildinni hefjast klukkan fimm. Víkingur tekur á móti FH og Valur sækir Stjörnuna heim.