Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bandaríkin auka hernaðaraðstoð við Úkraínu

12.06.2021 - 03:23
epa09259688 Barbed wire and fences were installed outside the Parc La Grange aux Eaux-Vives in Geneva, Switzerland, 10 June 2021. The Villa La Grange is the confirmed location of the meeting between the US president Joe Biden and Russian Presidents Vladimir Putin in Geneva, scheduled for June 16.  EPA-EFE/MARTIAL TREZZINI
Yfirvöld í Genf undirbúa sig af kappi fyrir fund þeirra Pútíns og Bidens í næstu viku. Í þeim undirbúningi felst ekki síst stóraukin öryggisgæsla og varnir af ýmsu tagi. Mynd: EPA-EFE - KEYSTONE
Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna tilkynnti í gær að Bandaríkjastjórn ætli að veita Úkraínu frekari hernaðaraðstoð, sem metin er á um 150 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 18 milljarða króna. Þetta bætist ofan á 15 milljarða hernaðaraðstoð, sem Bandaríkjastjórn ákvað að veita Úkraínu í mars. Í pakkanum sem kynntur var í gær eru meðal annars radarkerfi, drónar og fullkominn fjarskiptabúnaður.

Með þessu hefur Biden-stjórnin fullnýtt fjárheimildir þingsins til hernaðaraðstoðar við Úkraínu á þessu ári. John Kirby, talsmaður varnarmálaráðuneytisins, segir aðstoðina ætlaða til að „hjálpa Úkraínuher að verja friðhelgi landsvæðis síns og bæta samskipta- og samstarfshæfni þess við Nató."

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, og Vladimír Pútín, Rússlandsforseti, hittast á fundi í Genf miðvikudaginn 16. júní. Málefni Úkraínu verða þar ofarlega á baugi, enda saka bæði ríki hitt um óeðlileg afskipti af þeim.