Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Arnór og Álaborg í úrslit í fyrsta sinn

Mynd með færslu
 Mynd: Tomasz Kolodziejski - RÚV

Arnór og Álaborg í úrslit í fyrsta sinn

12.06.2021 - 17:13
Danska liðið Álaborg er komið í úrslit Meistaradeildar Evrópu í handbolta karla í fyrsta skipti. Liðið vann franska liðið París Saint-Germain í undanúrslitum í dag 35-33. Arnór Atlason fyrrverandi landsliðsmaður er aðstoðarþjálfari Álaborgar.

Frakklandsmeistarar PSG voru sterkari í fyrri hálfleik og komust mest fjórum mörkum yfir. Álaborg tókst að vinna sig betur inn í leikinn og tveimur mörkum munaði í leikhléi 13-15. 

Franska liðið náði fljótlega fimm marka forystu í síðari hálfleik en lið Álaborgar var ekki af baki dottið og náði forystunni 25-24. Eftir það var spennan mikil. Álaborg náði tveggja marka forystu í fyrsta skipti í leiknum 32-30 og vann að lokum tveggja marka sigur. 

Álaborg mætir annað hvort Barcelona eða Nantes í úrslitum mótsins á morgun. Aron Pálmarsson er á mála hjá Barcelona en skiptir yfir til Álaborgar í sumar. 

Fyrir hafði danska liðið mest náð í 16-liða úrslit.