Þórólfur vill fara hægt í tilslakanir á landamærum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
Sóttvarnaaðgerðir á landamærunum haldast óbreyttar til 1. júlí en þá leggur Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir til að hætt verði að skima bólusetta og þá sem hafa sýkst. Áfram þurfi aðrir að hafa vottorð um PCR-próf við komuna til landsins og fara í tvær skimanir og sóttkví.

„Það þarf að horfa á þetta í heild, aðgerðir innanlands og á landamærunum. Höfum lagt áherslu á að halda landamærunum góðum og slaka á innanlands, og það er einmitt það sem við erum að gera núna. Við erum ekki búin að ná nógu góðri þátttöku í bólusetningu hjá yngri hópunum og á meðan svo er er mjög mikilvægt að halda landamærunum góðum. Því við erum að sjá erlendis aukna útbreiðslu hjá yngra fólki, svo við þurfum að passa okkur,“ segir Þórólfur. 

Hann bendir á að þrjár vikur þurfi að líða frá fyrri sprautu til þess að ná góðri vörn og því megi ekki fara of geyst í tilslakanir. Þó sé ljóst að þakka megi góðu gengi í bólusetningu að þau smit sem greinst hafa á síðustu vikum hafi ekki breiðst meira út. Þórólfur segir mjög óalgengt að bólusettir greinist með COVID-19. 

„Kannski tíu manns og margir af þeim nýlega bólusettir og ekki komnir með almennilegt ónæmi. Og við getum sagt það sama á landamærunum; mjög fáir hafa komið hingað inn sem eru bólusettir en samt að greinast, en samt þónokkrir. En mér sýnist þetta sýna að bólusetning er mjög örugg og virk í að koma í veg fyrir smit,“ segir hann að lokum. 

Þórólfur segist ekki áhyggjurfullur um sumarið og telur stöðuna nokkuð góða, að því gefnu að bóluefnin gefi ekki eftir og ný og alvarlegri afbrigði komi ekki fram. Áfram þurfi þó að hafa í huga grundvallarsmitgát.