Styttuviðgerð við stjórnarráðið

Mynd með færslu
 Mynd: rúv

Styttuviðgerð við stjórnarráðið

11.06.2021 - 18:29

Höfundar

Kristján níundi, Hannes Hafstein og Jón Sigurðsson eru að fara í viðgerð. Vinna hefst við stytturnar tvær við Stjórnarráðið eftir helgi og vinna við Jón forseta í kjölfarið.

 

Kostnaður við verkið er um ein milljón króna á hverja styttu. Um er að ræða menningarverðmæti sem þarf að umgangast með aðgát og þekkingu, segir Sigurður Trausti Ólafsson deildarstjóri safneignar Listasafns Reykjavíkur. Heildarkostnaður verður um þrjár milljónir króna.

Samstarf ríkis og borgar

Listasafn Reykjavíkur hefur umsjón með styttum bæjarins og er eftirlit og viðhald með útilistaverkum á meðal verkefna. Rúmlega eitt hundrað og áttatíu myndastyttur og útilistaverk eru á skrá safnsins og þar af á Listasafn Reykjavíkur meirihlutann. Sum verkanna eru þó ríkiseign. Nú er verið að feta fyrstu skrefin í samstarfi ríkis og borgar um listaverkin og umhirðu þeirra. 
Jeanette Castioni forvörður sér til þess að viðgerðin sé unnin með réttum aðferðum og efnum. Sérfræðingar Listasafns Reykjavíkur eru henni innan handar. 
Viðgerðin á styttum Stjórnarráðsins tekur tæpan mánuð. Það eru þónokkuð mörg ár eða jafnvel áratugir síðan þeim var sinnt síðast að þessu leyti, annað en að þrífa smávegis veggjakrot eða þvíumlíkt.